Uncategorized — 18/09/2012 at 12:50

Wenger: Særir að sjá van Persie í annarri treyju

by

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur tjáð sig um Robin van Persie í pistli sínum sem hann skrifar á Eurosport. Hann segir óskiljanlegt fyrir stuðningsmenn, og sjálfan sig, að Hollendingurinn hafi farið til erkifjenda Arsenal í Manchester.

Robin van Persie var seldur til Man Utd fyrir rúmar 24 milljónir punda í sumar, en leikmaðurinn skoraði 37 mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili fyrir Skytturnar. Hann hefur hrokkið strax af stað eftir félagsskiptin, en hann hefur sett fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjunum.

Pistillinn í heild sinni:

„Robin van Persie er maður sem þú hittir sjaldan í lífi þínu – ótrúlegur leikmaður. Hann hefur allt það sem þjálfara dreymir um í einum leikmanni: hann er gáfaður, hefur klassa, góða líkamsbeitingu, drápseðli fyrir framan markið og heldur athygli sinni í 90 mínútur.

Ást hans á fótbolta rennur djúpt. Hann horfir á fótboltaleiki heima og fer ofan í saumana á öllum smáatriðum. Það er svo sjaldgæft að leikmaður með slíka hæfileika og klassa, hafi þessa gríðarlegu þörf fyrir fullkomnun. Hann spilaði átta tímabil undir mér og hætti aldrei að þróa sjálfan sig. Við hefðum aldrei getað ímyndað okkur að hann yrði sá leikmaður sem hann er núna. Það særir mig að sjá hann í annarri treyju en Arsenal treyjunni.

Það er ekki erfitt að stjórna honum sem leikmanni því hann er ofur-atvinnumaður. Hann er heima öll kvöld og ef þú hringir í hann klukkan 22 að kvöldi til þá mun hann svara í símann því hann er að horfa á leik í sjónvarpinu eða að undirbúa sig fyrir næsta leik með liði sínu. Með þennan grunn þá er auðvelt að vinna með honum. Þú mátt hafa aðrar skoðanir en hann, þó hann tjái sig eins og Hollendingur þegar kemur að fótbolta. En það er mjög auðvelt að eiga samskipti við hann því hver hreyfing, hver snerting verður að gerast með fullkomnun.

Núna er hann farinn. Ekki biðja aðdáendur um að skilja það sem er óskiljanlegt. Meira að segja ég skil ekki og er nú talinn talsvert skilningsríkur. Það verður bara hver og einn að eiga þetta við sjálfan sig. Svona er lífið. Við erum hérna til þess að hjálpa fólki að þróa hæfileika sína og þjálfari verður að eiga jákvæð áhrif á líf fótboltamanns.

Ég hefði viljað að van Persie hefði skrifað undir samning hjá erlendu liði til þess að komast hjá því að spila gegn honum nokkrum sinnum á tímabili, en það er góð áskorun fyrir okkur að sanna að við séum enn til staðar eftir slíkan missi. Sýna fólki að við getum skorað mörk, spilað vel og lifað allt af.

Robin van Persie og Wayne Rooney hafa allt til þess að smella vel saman. Stundum passa markaskorarar ekki saman, en ef það er skoðað tæknihæfileika þeirra á vellinum þá gæti þetta virkað. Það krefst þó mikils skilnings, bæði tæknilega og persónulega, en ólíkur árangur þeirra tveggja mun sameina þá. Ef þeir fá skilning fyrir hvor öðrum og skora mörk saman, þá verður það mjög, mjög sterkt.“

HilmarSig

Comments

comments