Uncategorized — 17/08/2014 at 18:09

Vonir og væntingar Kidda

by

Kiddi

Kiddi Guðbrands er gallharður Nallari og Keflvíkingur líka. Hann þjálfar núna 2. flokk ÍA en frægastur er hann fyrir vítaspyrnuna sem hann tók á laugardalsvelli 1997 og tryggði Keflvíkingum bikarmeistaratitilinn. Hann minnti mikið á Tony Adams á vellinum og ekki tilviljun að það varð hans uppáhalds knattspyrnumaður, eini mnurinn var að Kiddi spilaði númer 4 á meðan Adams spilaði í 6.

Við fengum hann til þessa að setja í einn pistil.

Það var ljúft að sjá Arsenal lyfta bikar í vor,  þó fæðingin hafi verið erfið. Flottur endir á tímabili sem var eitt besta tímabil Arsenal í mörg ár. Eftir að hafa verið á toppnum mestan part tímabilsins þá misstum við taktinn í febrúar/mars. Mörg töp litu dagsins ljós þessa tvo mánuði, sum hver stór og mjög sár. Það voru gríðarleg vonbrigði að sjá allt það sem hafði áunnist, hverfa á tveimur mánuðum. Við vorum aftur komnir í kunnuglega stöðu, að berjast fyrir meistaradeildarsæti. Ég viðurkenni það fúslega að ég hélt að við værum að fara berjast um titilinn fram á síðasta dag en því miður gekk það ekki eftir.

Hvað vantaði til að klára dæmið? Vissulega stór spurning. Meiðsli lykilmanna á tímabilinu hjálpuðu ekki til. Özil, Ramsey, Wilshere og Walcott voru frá allir á mikilvægum tímapunkti í febrúar og mars. Ox og Podolski voru lengi frá fyrir áramót. Það sjá allir að þetta er of stór biti að kyngja. Það hefur ekki verið auðvelt að vera Arsenal aðdáandi undanfarin ár, eftir góð ár frá 1997-2004 hefur enginn titill litið dagsins ljós þangað til í vor. Ástæður þessa titlaleysis má að mesti leyti rekja til peningaleysi félagsins. Ástæða peningaleysis er öllum kunn. Bygging nýja vallarins, Emirates Stadium, kostaði sitt.  Frá því hafist var handa við byggingu Emirates hefur Arsenal ekki getað keppt við lið eins og Man Utd, Chelsea og Man City um bestu leikmennina.

Nú er vonandi annar tími í vændum fyrir okkur Arsenal aðdáendur. Kaup á leikmönnum eins og Özil, Sanchez og vonandi einum til tveimur í viðbót fyrir komandi tímabil ætti að vera merki þess að nú séu betri tímar framundan, tímar þar sem Arsenal getur keppt við Man Utd, Chelsea og Man City um góða leikmenn. Við munum vonandi ekki sjá fleiri leikmenn á borð við Park, Benayoun og Santos keypta í ágústmánuðum næstu ára eða áratuga, með fullri virðingu fyrir þessum ágætu mönnum. Við munum heldur ekki þurfa að horfa uppá okkar bestu menn fara til helstu keppinautana vegna þess að þeir borga best og er salan á Thomas Vermaelen til Barcelona góð vísbending um að þeim tíma sé lokið.

Það sem mér þykir kannski hvað mest spennandi er hvort koma Shad Forsythe, þrekjálfara, verði eins og „new signing“. Meiðslatíðni hefur verið alltof há og sá tími sem leikmenn eru frá vegna meiðsla hefur verið alltoflangur, svo ekki sé meira sagt.  Arsenal var án lykilleikmanna í 1761 dag á síðasta tímabili á meðan til dæmis Chelsea var án lykilleikmanna í 556 daga (heimild). Vonandi sjáum við breytingu á þessu.

Framundan eru, að mínu mati, spennandi tímar fyrir okkur Arsenal aðdáendur. Hópurinn er að verða ansi þéttur ogvonandi verða einn til tveir leikmenn keyptir fyrir lok gluggans til að styrkja liðið, ásamt því sem margir ungir og mjög efnilegir leikmenn eru að koma upp.

Áfram Arsenal!

Comments

comments