Uncategorized — 15/04/2013 at 14:10

Upphitun: vs. Everton – Emirates – Þriðjudagur 16. apríl

by

 

mertesacker

 

Mertesacker snýr aftur í lið Arsenal eftir leikbann.

Arsenal liðið okkar á mikilvæga sjö daga leikjatörn framundan sem hófst með Norwich leiknum á laugardaginn. Annað kvöld mætir Arsenal svo Everton og síðar Fulham um helgina, en þetta eru þrír leikir áður en erkifjendur okkar í Tottenham eiga leik. Það er því gott tækifæri til að setja laglega pressu á Tottenham með því að ná sjö stiga forskoti á þá, þó þeir muni þá eiga tvo leiki til góða.

Staða okkar í deildinni er sú að liðið er komið uppí þriðja sætið með og erum stigi á undan Chelsea og Tottenham, en fyrrnefnda liðið á leik til góða.Við erum einnig í ágætismálum hvað markatölu varðar, erum með +29 (64-35) á meðan Chelsea eru með +28 (61-33) og Tottenham langt um verstir af Lundúnaliðunum þremur, eða +15 (55-40).

En því má ekki gleyma að Everton eru líka í baráttunni um þessi Meistaradeildarsæti. Þeir eru þremur stigum frá Tottenham og Chelsea, og fjórum á eftir okkur og því er mjög mikilvægt að tapa ekki þessum leik. Everton eru að festa sig í sessi sem Meistaradeildar kandidatar ár eftir og ár og virðast á leiðinni að festa sig í sessi sem betra liðið í Liverpool borg.

Everton hafa verið á fínu skriði að undanförnu og klórað í 13 stig af síðustu 15 mögulegum en Arsenal 12 stig af síðustu 15, þar af eru öll stigin í síðustu fjórum leikjum en meðal þessara leikja er sigurleikur Everton gegn Man City á Goodison 16. mars og jafntefli við Tottenham á White Hart Lane 7. apríl.

Everton hafa sömuleiðis unnið 5 og tapað 1 af síðustu 6 útileikjum liðsins og því er ljóst að þrátt fyrir að gengi Arsenal hafi verið bjart uppá síðkastið hefur það sennilega verið ennþá bjartara í herbúðum Everton.

Bæði lið ættu þó að geta spilað á hér um bil besta hópnum sínum en aðeins einn leikmaður er frá í hvoru liði, en það eru Tony Hibbert hjá Everton og Abou Diaby hjá Arsenal. Tomas Rosicky verður til í slaginn en í staðinn á meiðslalistann færist markvörðurinn Lukasz Fabianski, hann er mjög tæpur fyrir leikinn.

Af líklegu byrjunarliði þá gildir reglan að þú breytir ekki liði sem er á sigurbraut og því má búast við ósköp svipuðu liði í þessum leik og í undanförnum leikjum. Mertesacker verður sennilega klár í slaginn í kvöld eftir leikbann og tekur býst ég við sætið af Vermaelen. Persónulega væri ég til í að sjá sama byrjunarlið spila leikinn og endaði leikinn svo vel gegn Norwich, en það er fyrir utan að Chamberlain byrji á bekk og Sagna taki sætið af honum þar sem að sú skipting kom eingöngu til að freista þess að vinna leikinn, plús að Mertesacker komi inní byrjunarliðið. Ég býst þó við að Wenger hafi enn trú á Gervinho og geymi Podolski áfram á bekknum.

Líklegt byrjunarlið Arsenal:
Giroud
Gervinho – Rosicky – Cazorla
Arteta – Ramsey
Gibbs – Mertesacker – Koscielny – Sagna
Mannone

Eyþór Oddsson

Comments

comments