Uncategorized — 28/12/2013 at 04:01

Upphitun: Newcastle – Arsenal

by

Kos Newcastle

Arsenal sækir Newcastle heim á morgun kl. 13:30. Bæði lið unnu sannfærandi sigra í síðustu umferð en Newcastle fór nokkuð létt með Stoke á heimavelli sem misstu tvo menn af velli seint í fyrri hálfleik og leikmenn því líklega í nokkuð góðu standi líkamlega eftir að hafa tekið því léttar í 50 mínútur.

Líkamlegt ástand hefur þó oft verið betra á leikmönnum Arsenal en Arséne Wenger hefur nánast spilað á sama liðinu leik eftir leik. Wenger kaus að nota engar skiptingar gegn Chelsea og stillti upp nákvæmlega sama liði gegn West Ham að undanskilinni einni breytingu þar sem Cazorla kom inn fyrir Rosicky. Frakkinn þrjóski getur þó ekki stillt upp sama liði gegn Newcastle enda Ramsey meiddur. Þá er Jack Wilshere búinn að afplána tveggja leikja bannið sitt og mun jafnvel detta beint inn í liðið.

Eftir brösuga byrjun á tímabilinu hafa Newcastle klifrað upp töfluna og eru þegar þetta er skrifað með 33 stig í 6. sæti, 2 stigum meira en Man Utd. og Tottenham. Heimavöllurinn hefur verið drjúgur fyrir þá en aðeins óvænt 2-3 tap gegn Hull City skyggir á annars flottan árangur þeirra (18 stig af 27 mögulegum). Chelsea tapaði til að mynda 2-0 á St. James Park og Liverpool náði aðeins 2-2 jafntefli svo það er ljóst að það er erfitt verkefni sem bíður Arsenal á morgun.

Newcastle liðið er vel mannað. Tim Krul er virkilega góður markmaður sem mun líklega taka treyju nr. 1 hjá Hollandi á Heimsmeistarakeppninni næsta sumar. Bakvörðunum Santon og Debuchy finnst gaman að sækja á meðan Coloccini er kóngurinn í vörninni. Á miðjunni eru það Sissoko og Cabaye sem geta auðveldlega refsað með eitruðum sendingum séu menn ekki einbeittir allan tímann og Loic Remy þarf hvorki mikinn tíma né pláss til að skora en hann hefur skorað 10 mörk á tímabilinu. Það er því margt sem þarf að huga að en góðu fréttirnar eru þær að ef Pardew neyðist til að hvíla þá veikist liðið enda leikmennirnir á bekknum ekki eins sterkir og þeir sem ég nefndi hér.

Screen Shot 2013-12-28 at 3.37.54 AM

Það er svolítið erfitt (eins og alltaf) að stilla upp hugsanlegu byrjunarliði. Flamini hefur nú setið á bekknum tvo leiki í röð og ég á svona frekar á von á því heldur en ekki að hann fái að spila þennan leik. Arsenal vantar geðveikina sem hann hefur upp á að bjóða í erfiðum útileik eins og þessum, tæklingarnar, hvatninguna og drifkraftinn sem smitar út frá sér. Það er spurning hvort að það sé kominn tími á að gefa Arteta hvíld og setja Wilshere inn í hans stað en ég er ekki svo viss um að Wenger geri það, hann lætur JW jafnvel bíða aðeins lengur eftir því að fá að sprikla að nýju og skiptir honum inn á á 70 mínútu. Koscielny gæti verið leikfær en Thomas Vermaelen verðskuldar ekki að vera tekinn úr liðinu eftir flotta leiki gegn Chelsea og West Ham. Ég held einnig að Wenger taki sér tíma í að koma Podolski aftur inn í liðið eins og hann gerði með Walcott og ég sé fyrir mér að honum verði skipt inn á á sama tíma og JW, jafnvel fyrr ef staðan er erfið í leiknum. Giroud og Özil spila þennan leik en fá svo langþráða hvíld gegn Cardiff.

Newcastle verða þrælerfiðir á heimavelli en ég spái að Arsenal hafi betur og vinni leikinn 1-2 með mörkum frá Theo Walcott og langþráðu marki frá Giroud! Þeir munu samt þurfa að hafa fyrir þessu og munu flestir leikmenn varla geta gengið af velli að leik loknum.

TG

 

Comments

comments