Uncategorized — 10/12/2013 at 14:27

Upphitun: Napoli – Arsenal

by

Arsenal nægir jafntefli til að tryggja sér fyrsta sætið í F-riðli er þeir sækja Napoli heim á morgun. Ef þeir ætla að taka upp á því að tapa og Dortmund vinnur Marseille í Frakklandi mega Arsenal ekki tapa með meira en tveggja marka mun. Sem sagt, ótrúlega spennandi kvöld í vændum sem mun án efa bjóða upp á mikla dramatík.

Arséne Wenger hlýtur að taka stefnuna á fyrsta sætið, þar er hann núna og þar vill hann vera þegar dregið verður í 16-liða úrslitin. Ef annað sætið verður raunin þá má búast við erfiðum andstæðing á borð við Barcelona, Real Madrid, Bayern Munchen og PSG. Rafael Benitez hefur einnig mikla ástríðu fyrir Meistaradeildinni og vill sennilega koma sínum mönnum í góð mál með sigri. En það þarf mikið að gerast svo Arsenal fari allt í einu að fá á sig þrjú mörk og skora ekki neitt á móti liði sem hefur verið óstabílt á tímabilinu. Napoli hefur til að mynda ekki tekist að halda hreinu á heimavelli í riðlinum en þeir fengu á sig 1 mark gegn Dortmund og 2 gegn Marseille. Þá fengu þeir á sig 3 mörk gegn Udinese um helgina og greinilega vandræðagangur í vörninni.

Lið Napoli er vel skipað. Gonzalo Higuain er þeirra helsta ógn eins og flestir vita. Lucas Insigne, José Callejon og Goran Pandev eru leikmenn sem geta valdið usla og hafa þarf góðar gætur á. Boltinn má alls ekki vera skoppandi fyrir framan markteiginn í kringum Gökhan Inler því þá má búast við sleggju sem endar í netinu. Ég er örugglega að fara með rétt mál þegar ég segi að Marek Hamsik sé meiddur en hann var allavega ekki í hóp um helgina sem er góðs viti fyrir Arsenal. Þá er það bara dómarinn Viktor Kassai frá Ungverjalandi sem að Arsenal þarf að hafa áhyggjur af en hann hefur ekki verið þeim hliðhollur í gegnum tíðina. Kassai dæmdi í 2-0 ósigri gegn Braga fyrir þremur árum og 4-0 tapinu gegn AC Milan í fyrra. Reyndar hefur hann einnig dæmt í óvæntu tapi Napoli gegn Viktoria Plzen svo bæði lið eiga slæmar minningar um Kassai.

Özil

Það hlýtur að vera eitthvað um þreytu í hópnum hjá Arsenal eftir erfiðan leik gegn Everton á sunnudaginn og ekki er síður mikilvægur leikur í hádeginu á laugardaginn næsta. Það er því að mörgu að hyggja hjá Arséne Wenger, stillir hann upp sínu sterkasta liði til að tryggja toppsætið eða gerir hann einhverjar breytingar? Flamini kom virkilega sterkur inn gegn Everton eins og Walcott og Rosicky og ég spái því að allir þessir leikmenn fái að byrja. Arteta fer á bekkinn sem og Cazorla. Spurning hvort að Wenger hvíli Özil loksins eða Wilshere. Vörnin verður eins nema að Sagna sé að braggast en kannski gæti Monreal dottið inn en ég tel það ólíklegt. Wenger fer aldrei að láta Bendtner byrja þennan leik, það er nefnilega smá munur á Hull á heimavelli og Napoli á útivelli þegar svona mikið liggur undir.

Screen Shot 2013-12-10 at 12.33.42 AM

Ég ætla að spá hörkuleik 2-2 þar sem að þreytan gerir vart við sig hjá Arsenal og menn missa einbeitinguna í tvö skipti. Bæði lið eru mikið fyrir að sækja og leikurinn verður mikið fyrir augað. Ramsey heldur áfram að bæta í markasafnið sitt og maður stóru leikjanna, Laurent Koscielny, sér til þess að Arsenal endi í 1. sætinu. Góða skemmtun!

TG

 

Comments

comments