Uncategorized — 06/02/2014 at 21:58

Upphitun: Liverpool – Arsenal

by

Arsenal v Liverpool - Barclays Premier League

Arsenal heimsækir Liverpool á Anfield kl. 12:45 á laugardag í ótrúlega mikilvægum leik. Síðasta helgi gat varla verið betri en fyrir utan Chelsea töpuðu liðin í kringum okkur stigum. Arsenal er tveimur stigum á undan Man City og Chelsea og að sjálfsögðu viljum við halda því forskoti lengur. Liverpool sem situr í fjórða sæti með 47 stig vill að sjálfsögðu styrkja stöðu sína.

Liverpool hefur spilað 12 leiki á heimavelli sínum á tímabilinu, unnið 10 þeirra en tapað fyrir Southampton og gert jafntefli við Aston Villa. En gengi Liverpool-manna hefur verið misjafnt gegn stóru liðunum. Þeir unnu Man Utd. (1-0) og Everton (4-0) á heimavelli sínum og tóku Tottenham í kennslustund 5-0 á White Hart Lane. En svo hafa þeir tapað útileikjum gegn Arsenal, Man City og Chelsea.

Þeirra helsta vandamál hefur verið vörnin og nokkur einstaklings mistök hjá Mignolet. Til að bæta gráu ofan á svart eru Agger, Sakho, Enrique, Glen Johnson og Lucas allir á meiðslalistanum. Þeir þurfa hins vegar ekki að hafa áhyggjur af sóknarleik sínum enda Sturridge og Suarez eitrað sóknarpar. Þeim gekk þó ekkert alltof vel gegn Mertesacker og Koscielny í nóvember og við skulum vona að það endurtaki sig á laugardaginn.

Arsenal fékk góðar fréttir í dag en Jack Wilshere ætti að vera klár fyrir leikinn. Mikel Arteta er einnig góður eftir að hafa fengið högg gegn Crystal Palace um síðustu helgi. Það er því erfitt að spá fyrir um hver verður með Arteta á miðjunni gegn Liverpool. Verður Chamberlain verðlaunaður fyrir fína frammistöðu gegn Palace eða vegur reynsla Rosicky þyngra? Eða verður kannski Wilshere hent beint í byrjunarliðið? Ég ætla að veðja á að Chambo verði settur á hægri kantinn og Rosicky á miðjuna.

Screen Shot 2014-02-06 at 9.28.28 PM

Wenger getur án efa stillt upp liði sem getur unnið Liverpool á laugardag. Lykillinn að sigri er að sjálfsögðu að stöðva Suarez og Sturridge eða aðallega þjónustuna við þá. Þar að auki þarf Giroud að eiga betri dag en gegn Crystal Palace og búa til svæði fyrir Özil og co.

Ég ætla að spá 2-1 sigri fyrir Arsenal þar sem að Koscielny skorar eftir hornspyrnu og Özil setur óvænt eitt. Sturridge setur markið fyrir Liverpool.

TG

Comments

comments