Uncategorized — 29/11/2013 at 13:59

Upphitun: Cardiff – Arsenal

by

gunnarsson-extends-stay-at-bluebirds-Image

Arsenal heimsækir Cardiff City á morgun kl. 15:00. Cardiff hafa nú þegar fengið til sín góða gesti á tímabilinu eins og Man City, Tottenham, Everton og nú síðast Man Utd. þar sem Cardiff-menn náðu að jafna undir lokin 2-2. Hingað til hafa þeir spilað sex leiki á heimavelli, tveir hafa unnist, tveir hafa endað með jafntefli og tveir hafa tapast. Arsenal hefur aðeins tapað einum útileik af sex þannig að möguleikarnir fyrir sigri ættu að vera góðir en ekki sjálfsagðir eins og Manchester liðin fengu að kynnast.

Hinn litríki eigandi Cardiff, Vincent Tan, var duglegur að eyða í leikmenn í sumar sem hafa stimplað sig misvel inn í hópinn. Það má þó segja að tveir af þeim leikmönnum sem hann fékk til sín hafa borið liðið á herðum sér. Það eru þeir Gary Medel og Steven Caulker. Gary Medel er ótrúlegur fengur fyrir lið sem er nýkomið upp í deild þeirra bestu og kaupin á Caulker komu á óvart í ljósi þess að hann hafði staðið sig glimrandi vel með Swansea og Tottenham. Kaupin á Medel gerðu það að verkum að Aron Einar fékk samkeppni á miðjunni og hefur orðið undir í þeirri baráttu í síðustu leikjum með bekkjarsetu.

En það sem Cardiff vantar sárlega er framherji sem skorar mörk. Frazier Campbell er markahæsti leikmaður liðsins með 3 mörk og er hann eini framherjinn í liðinu ásamt Peter Odemwingie sem hefur komið sér á blað í deildinni. Ef Cardiff ætlar að halda sæti sínu í deildinni verða framherjarnir að fara að detta í gang.

Arsenal með sína firnasterku vörn ætti ekki að eiga í vandræðum með að bæla niður framherja Cardiff en Wales-verjarnir eiga annað vopn inni sem eru föst leikatriði. Þar er Steven Caulker ávalt hættulegur og sömuleiðis Frazier Campbell. Það er því mikilvægt að halda hornspyrnum í lágmarki.

Það er spurning hvernig liði Wenger stillir upp á morgun. Kieran Gibbs dettur aftur inn í byrjunarliðið eins og Santi Cazorla. Ég hef núna spáð Theo Walcott byrjunarliðssæti í tvígang og haft rangt fyrir mér í bæði skiptin en allt er þegar þrennt er og hann fær tækifærið núna. Flamini verður að spila þennan leik enda þarf hann að kljást við Gary Medel á miðjunni. Þá er bara spurning með Özil, Ramsey og Wilshere. Réttast væri að setja Özil á bekkinn enda verið slakur undanfarið. Wilshere þarf auðvitað að meðhöndla varlega og passa að spila honum ekki um of og Wenger hefur það örugglega ekki í sér að taka Ramsey út gegn gömlu félögunum. Wilshere fer því óverðskuldað á bekkinn.

Screen Shot 2013-11-29 at 12.46.08 PM

Það hlýtur að valda Wenger svefntruflunum að stilla upp liði sínu í dag, það þarf alltaf að fórna einhverjum á bekkinn en þannig eiga líka lið að vera sem eru að berjast um titla. Ég spái Arsenal 0-2 sigri með mörkum frá Giroud sem á eftir að elska að spila þennan leik og einu klaufalegu sjálfsmarki. Það verður ekki auðvelt enda á aldrei að vera auðvelt að fara á útivöll í sterkustu deild í heimi.

TG

Comments

comments