Uncategorized — 03/01/2014 at 19:32

Upphitun: Arsenal – Tottenham

by

Arsenal v Tottenham Hotspur - Premier League
Arsenal fær erkifjendurna í Tottenham heimsókn á morgun kl. 17:15 í 32-liða úrslitum FA-bikarsins. Bæði lið eru frekar vængbrotin þessa stundina en eiga það sameiginlegt að hafa átt góða jólatörn. Tottenham hafa upplifað endurnýjun lífdaga með brottrekstri Villas-Boas og ráðningu Tim Sherwood sem hefur náð að hleypa nýju lífi í leikmennina.

Emmanuel Adebayor hefur til að mynda fengið tækifærið og nýtt það afar vel með mikilvægum mörkum en hann verður líklega í hópi Tottenham á morgun. Tim Sherwood hefur verið að stilla upp 4-4-2 með þá Adebayor og Soldado fremsta. Fyrir aftan þá má búast við því að sjá Eriksen, Dembélé, Capoue og Lennon. Vörnin er svo skipuð þeim Rose, Chiriches, Dawson og Walker en Vertonghen og Kaboul eru frá vegna meiðsla. Hugo Lloris stendur svo pliktina í rammanum.

Eitt helsta áhyggjuefnið í herbúðum Arsenal er framherjastaðan. Eins og flestir vita meiddist Bendtner í síðasta leik og Giroud er tæpur en hann lá víst uppi í rúmi í dag vegna veikinda. Þá er bara spurning hvort að Wenger noti Podolski eða Walcott frammi. Ég var ekki ánægður með Podolski sem fremsta mann í síðasta leik, auðvitað er hann ekki enn kominn í sitt besta stand en maðurinn getur ekki spilað einn upp á topp og það sýndi hann líka á síðasta tímabili. Hann nýtist miklu betur á kantinum rétt eins og Walcott. Ef Walcott fengi kallið væri hægt að láta Gnabry á hægri kantinn en ég tel það þó ólíklegt.

Eitthvað var talað um það í pressunni að Gedion Zelalem myndi byrja leikinn en miðað við mannskapinn sem var á æfingu í dag sé ég ekki ástæðu til þess að nota hann. Özil var t.d. glaður í bragði á æfingunni og líklega hefur Wenger hvíslað því að honum að hann myndi byrja leikinn. Þá má spyrja sig að því hvort að Wenger leyfi Fabianski eða Viviano að verja ramman en Wenger hefur oft hvílt aðal markmanninn í þessari keppni. Ég sé þó enga ástæðu til þess að láta markmenn í engu leikformi spila leik eins og þennan.

Screen Shot 2014-01-03 at 7.21.49 PM
Byrjunarliðið gæti litið svona út á morgun en það má alveg eins gera ráð fyrir því að Özil byrji á bekknum og Arteta eða Rosicky taki hans stöðu. Liðið er nokkuð sterkt fyrir utan framherja krísuna en ætti samt alveg að taka Tottenham á góðum degi. Ég spái fjörugum leik þar sem nokkur mörk líta dagsins ljós. Arsenal mun hafa þetta á heimavelli sínum og vinna góðan 2-1 sigur með mörkum frá Walcott og Mertesacker. Adebayor setur að sjálfsögðu mark fyrir Tottenham og mun fagna eins og trítilóður smákrakki í kjölfarið.

TG

Comments

comments