Uncategorized — 22/11/2013 at 11:09

Upphitun: Arsenal – Southampton

by

Arsenal fær verðugan andstæðing í heimsókn á morgun kl. 15:00  þegar að strákarnir hans Mauricio Pochettino í Southampton mæta á Emirates. Leikurinn í fyrra endaði 6-1 fyrir Arsenal en ég get lofað ykkur því að það verður ekki endurtekning á því.

Pochettino gerði virkilega vel á leikmannamarkaðnum í sumar þegar hann fékk til sín þrjá sterka leikmenn. Króatíski miðvörðurinn Dejan Lovren kom frá Lyon, sem er óþreyttur eftir umspilsleikina við Ísland enda kom hann ekki við sögu nema rétt svo í uppbótartíma í síðari leiknum. Miðjumaðurinn sterki Victor Wanyama var keyptur frá Celtic en hann hafði verið orðaður við stóru liðin á Englandi sem og önnur stór lið í Evrópu eftir að hafa sýnt góða takta í Meistaradeildinni. Ítalski tískufuglinn Pablo Osvaldo kom svo frá Roma en hann hafði síður en svo staðið sig illa þar á bæ, með 27 mörk í 55 leikjum. Fyrir voru flottir póstar eins og Rickie Lambert, Adam Lallana, Morgan Schneiderlin og loksins fór Artur Boruc að sýna mátt sinn og megin í búrinu.

Eftir 11 leiki situr liðið í þriðja sæti með 22 stig en þeir hafa unnið 6 leiki og gert 4 jafntefli. Eini tapleikurinn kom gegn Norwich 31. ágúst á útivelli en prógrammið hefur síður en svo verið létt. Þeir hafa nú þegar bæði farið á Anfield og Old Trafford og komið þaðan með 4 stig sem verður að teljast sterkt fyrir lið sem er að hefja sitt annað ár í efstu deild. Til gamans má geta að bæði mörkin sem þeir skoruðu á þessum völlum komu úr hornspyrnum svo að BFG verður að sjá til þess að þeir komist ekki lönd né strönd í teignum! Einnig hafa þeir fengið fæst mörk á sig í deildinni eða samtals 5. Það er því stranglega bannað að vanmeta þá heilögu er þeir sækja okkur heim á morgun.

Arsenal fékk góðar fréttir í gær en Theo Walcott er orðinn leikfær og þá er bara spurning hvort að Wenger hendi honum beint í byrjunarliðið eða gefi honum smá blóð á tennurnar og setji hann á bekkinn. Það er nefnilega hægara sagt en gert að stilla upp byrjunarliðinu þegar flest allir eru heilir, hver á að víkja?

Walcott er orðinn leikfær en Ox er að minnsta kosti frá í mánuð í viðbót. Báðir hlutu þeir uppeldi sitt í Southampton.

Mathieu Flamini verður reyndar í banni í þessum leik en hann nældi sér í sitt fimmta gula spjald gegn United. Ef Walcott byrjar er það spurning hvort að Wenger stilli Wilshere eða Arteta við hlið Ramsey á miðjunni. Ég ætla að veðja á Arteta að þessu sinni enda Wilshere gjarn á að æða fram og skilja öftustu línuna varnarlausa á meðan. Þá verður Özil færður fyrir aftan Giroud og Cazorla verður á kantinum vinstra megin.

Screen Shot 2013-11-21 at 8.05.17 PM

Ég geri ráð fyrir hörkuslag á morgun þar sem að hart verður barist á miðjunni og fá mörk munu líta dagsins ljós. Ég hef alltaf trú á mínum mönnum á heimavelli og þeir munu taka þetta 1-0 eða 2-0. Theo Walcott setur eina mark leiksins eftir fallega stungusendingu frá Özil og kýs að halda fögnuði í lágmarki. Ef Ramsey er í stuði bætir hann við öðru marki eftir að hafa sólað þrjá varnarmenn upp úr skónum.

Torfi Guðbrandsson

Comments

comments