Arsenal Almennt — 02/01/2016 at 02:15

UPPHITUN: Arsenal – Newcastle

by

derby Arsenal-Newcastle

Leikurinn

Fyrsti leikur ársins er heimaleikur þar sem Arsenal fær fallbaráttulið Newcastle United í heimsókn. Newcastle hafa verið í basli í deildinni og sitja í 18. sæti deildarinnar, en 18. sætið er efsta sætið af þeim liðum sem falla um deild.

Áhugaverðar og sumar tilgangslausar staðreyndir um Newcastle

Alan Shearer er ein helsta goðsögn félagsins en hann kostaði félagið 15 milljónir punda árið 1996. Shearer var dýrasti leikmaðurinn í sögu Newcastle þar til að Newcastle keyptu Michael Owen frá Real Madrid á 16 milljónir punda tímabilið 05-06. Newcastle spilar heimaleiki sína á St. James’s Park í Newcastle. Markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi skoraði 178 mörk tímabilin 1946-1957 og heitir Jackie Milburn. Jimmy Lawrence er aftur á móti leikjahæstur en hann spilaði í 18 ár fyrir félagið árin 1904-22 og lék 432 leiki.

Fyrrum viðureignir

Það má með sanni segja að Arsenal sé búið að halda Newcastle í heljargreipum þennan áratuginn. Arsenal hefur unnið átta leiki í röð gegn Newcastle en seinasti leikur sem ekki vannst fór fram í ágúst 2011 á St. James’s Park og endaði með markalausu jafntefli. Andy Carroll skoraði sigurmark Newcastle í síðasta tapleik Arsenal gegn Newcastle en það var í nóvember 2010.

Tveir leikir þessarra liða eru sérstaklega eftirminnilegir. Annars vegar er það hinn stórmagnaði 7-3 sigurleikur Arsenal í jólatörninni 2012 og hinsvegar 4-4 jafnteflið í febrúar 2011. Sérstaklega eftirminnilegur þar sem að Arsenal komst í 4-0 eftir 25 mínútna leik en missti forskotið niður á aðeins 20 mínútum í seinni hálfleik.

Liðsfréttir

Frá því í leiknum gegn Bournemouth er eingöngu Flamini klár í slaginn af þeim sem fyrir voru meiddir. Liðinu verður að öllum líkindum eitthvað breytt frá leiknum gegn Bournemouth en liðsvalið þar einkenndist af því að lítil hvíld gafst á milli leikja í það skiptið.

Nú hafa strákarnir fengið fjóra heila frídaga milli leikja og spáum við því hefðbundnu byrjunarliði

Giroud
Walcott – Özil – Campbell
Ramsey – Flamini
Monreal – Mertesacker – Koscielny – Bellerin
Cech

Ospina; Debuchy, Gibbs, Chambers, Gabriel, Chamberlain, Iwobi.

Comments

comments