Uncategorized — 25/11/2013 at 15:09

Upphitun: Arsenal – Marseille

by

Arsenal getur tryggt sig upp úr F-riðlinum með sigri á Marseille á morgun fari svo að Dortmund nái ekki að vinna Napoli í Þýskalandi á sama tíma. Marseille eru með 0 stig eftir fjórar umferðir en því miður fyrir þá eru þeir númeri of litlir fyrir dauðariðilinn.

Eftir frábæran útisigur í síðustu umferð er það nú bara formsatriði að klára Marseille heima en það má ekki gleyma því að liðin sem hafa að engu að keppa eru oft stórhættuleg. Ég hef þó ekki miklar áhyggjur af Marseille enda orðrómar í gangi um að þeir verði án þriggja lykilmanna á morgun en það eru þeir André Ayew, Rod Fanni og Dimitri Payet. Þeir státa samt af nokkrum hættilegum leikmönnum eins og Mathieu Valbuena sem er algjör lykilmaður og André-Pierre Gignac sem skoraði stórglæsilegt mark um helgina í 1-3 útisigri gegn Ajacco. Jordan Ayew og Florian Thauvin eru svo efnilegir leikmenn sem hafa þarf gætur á.

Marseille á Emirates á samt að vera skyldusigur og ég vil ekki sjá markalaust jafntefli eins og raunin var þegar þessi lið mættust á sama velli fyrir tveimur árum.

Ramsey í baráttunni við André Ayew árið 2011.

Mér finnst líklegt að Wenger róteri liðinu aðeins frá því um helgina. Ég sé fyrir mér að Kieran Gibbs fái hvíld og að Nacho Monreal detti inn í hans stað en spánverjinn hefur verið orðaður í burt frá félaginu núna síðustu daga. Flamini kemur frískur inn í byrjunarliðið eftir langt frí og Arteta fer á bekkinn í staðinn. Jack Wilshere fær einnig sæti á besta stað og Theo Walcott kemur inn í hans stað. Wenger mun sennilega ekki brjóta upp miðvaraparið sitt með því að troða Vermaelen inn í þetta en svo er spurning hvort að Rosicky byrji leikinn á kostnað Cazorla sem veitir ekki af hvíld svona af og til.

Screen Shot 2013-11-25 at 2.30.33 PM

Wenger hefur alveg efni á því að rótera liðinu gegn Marseille svo lengi sem að hann lætur ekki danann byrja eða Park Chu-Young. Ég vona svo innilega að Monreal fái að byrja því að mér líkar virkilega vel við kauða og vil alls ekki missa hann. Gaman væri svo að sjá Gnabry fá nokkrar mínútur í lokin. Ég spái því að við höldum hreinu og setjum þrjú á Marseille. Giroud setur eitt fyrir afa sinn, Walcott skorar markið sem hann átti að skora á móti Southampton og Monreal þakkar Wenger traustið með snyrtilegu skoti. Náum í þessa 3 punkta og ekkert helvítis kjaftæði.

TG

Comments

comments