Leikjaumfjöllun — 18/12/2015 at 16:16

UPPHITUN: Arsenal – Manchester City

by

arsenal city

Jólin eru að ganga í garð og jólaleikir Arsenal byrja með heimaleik gegn Manchester City næstkomandi mánudag. Bæði lið eru í bullandi toppbaráttu en Arsenal er sem stendur í 2. sæti með 33 stig eftir 16 leiki en City fylgir þar fast á eftir í 3. sæti með 32 stig. Um að gera að nota þennan leik fyrir bæði til að setja pressu á Leicester á toppnum.

Hver er mótherjinn?

Manchester City FC var stofnað 1894. Liðið var ávalt ‚litla liðið‘ í Manchester þar sem grannar þeirra í Manchester United réðu lögum og lofum í borginni þar til árið 2008 þegar að liðið var keypt af Abu Dhabi United Group.
Árangur liðsins var af skornum skammti þar til það var keypt af Abu Dhabi en liðið vann sinn síðasta deildarsigur tímabilið 1967/68 áður en það vann deildina 2011/12. Liðið hefur lyft samtals 5 bikurum síðan það var keypt. (Fólk deilir um það hvort Góðgerðarskjöldurinn sé titill eða ekki)
Gengi liðsins í Meistaradeildinni hingað til hefur ekkert verið til að hrópa húrra fyrir en þeir hafa aldrei komist lengra en 16 liða úrslit en svo sem má segja það sama um okkar klúbb síðustu árin, eins leiðinlegt og það er.

Þjálfari

Núverandi þjálfari er hinn eitursvali Manuel Pellegrini en áður en hann tók við City hafði hann stjórnað Malaga, Real Madrid, Villarreal og River Plate svo eitthvað sé nefnt.
Pellegrini hefur látið City liðið sitt spila hið klassíska leikkerfi 4-4-2 með ágætis árangri en hefur þó dottið í 5-4-1 eins og mátti sjá í leiknum gegn Watford.
Pellegrini leggur upp með að stjórna leiknum með því að halda boltanum en þegar nær marki andstæðingsins er komið lætur hann liðið spila snöggan sendingabolta til að draga varnarmennina úr stöðum. Á góðum degi er mjög erfitt að verjast þessu og getur liðið spilað óaðfinnanlega.

Lykilmenn

Lykilmenn City eru að sjálfsögðu David Silva, Vincent Kompany, Sergio Aguero og Yaya Toure.
Þegar Aguero er heill verður liðið strax margfalt hættulegra enda er Aguero einn besti framherji í heimi. Það þarf bara að horfa á hvað hann hefur skorað mörg mörk fyrir liðið en í heildina hefur hann skorað 116 mörk í 176 leikjum, en þar af voru 85 þessara marka í deildinni. Viðurkenni að ég er sjúklega öfundsjúkur að þeir séu með hann.
David Silva er heilinn í liðinu en hann sér um að dreifa boltanum í liðinu og leggja upp mörk. 88% sendinga hans hafa heppnast en hann er þó enginn Özil.
Yaya Toure er nautið á miðjunni sem sækir bæði fram og hjálpar til í vörninni. Toure hefur flest það sem að alhliða miðjumaður ætti að hafa. Styrkur, úthald, hraði, ógn við markið og góð sendingageta. Ekki margir sem mér dettur í hug sem búa yfir því sama nema þá kannski Paul Pogba. Þó hann hafi eitthvað dalað eftir 2013/14 tímabilið þar sem hann skoraði 20 mörk í deildinni held ég að fáir efist um gæði leikmansins.
Vincent Kompany er líklega einn mikilvægasti hlekkur liðsins en Pellegrini hefur sjálfur sagt að liðið sé alltaf betra með hann í liðinu, þó svo að hinir tveir miðverðirnir séu með þeim dýrari í bransanum, þeir Otamendi og Mangala. City hefur aðeins fengið á sig eitt mark í þeim 8 deildarleikjum sem að hann hefur tekið þátt í en aftur á móti hafa þeir aðeins haldið einu sinni hreinu í hinum leikjunum 8 sem hann hefur ekki tekið þátt í.

Undanfarnir leikir

City unnu sinn síðasta leik gegn Swansea City 2-1 á heimavelli. Liðið naut boltans meira en voru þó ekkert áberandi betri en Gylfi og félagar en tvö mörk komu í leikinn á 90. mínútu og þar eftir. Þar á undan töpuðu þeir gegn Stoke City 2-0 þrátt fyrir að hafa verið nokkuð betri, en þó ekki nóg. Það verður því að segjast að City hefur ekkert verið að standa sig neitt frábæralega undanfarið og getur því allt gerst.

Meiðsli

Pellegrini hefur sagt að Aguero ætti að ná leiknum gegn Arsenal en óvíst er hvort hann muni byrja eða komi af bekknum.
Kompany ætti ekki að ná leiknum en miðað við það sem Pellegrini hefur sagt ætti hann að byrja að vinna með liðinu eftir helgi.
Fernando og nasri eru einnig meiddir og munu ekki taka þátt í leiknum.

 

Fréttir af Arsenal

Meiðsli

Eins og svo oft áður er Wilshere meiddur en hann ætti að koma til baka í lok janúar.
Samkvæmt PhysioRoom ætti Arteta að snúa aftur á mánudaginn og sama með Alexis. Spurningin er bara hvort Wenger taki sénsinn með að spila honum en eitt er víst að Alexis vill ólmur spila leikinn.
Coquelin, Cazorla, Welbeck og Rosicky eru svo einnig frá og er það langt í að þeir verði tilbúnir að ekki er tímabært að tala eitthvað af viti um þá.

Á hverjum verða okkar augu?

Við þurfum virkilega að fylgjast með áðurnefndum lykilmönnum City en einnig þarf að hafa gætur á Sterling og De Bruyne en þeir hafa hæfileikana í það að breyta leikjum.
Í okkar eigin hópi þurfum við að fylgjast vel með þeim manni sem kemur til með að leysa Coquelin af hólmi, en það verður mjög líklega Flamini. Spurningin er bara hvort hann nái að halda í við gæði framlínu City. Þar að auki verðum við að vona að Giroud haldi uppteknum hætti og skori í þessum leik.

Líklegt byrjunarlið

arsenal lið

Hvar get ég séð leikinn? Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 á mánudaginn fyrir þá sem eru með áskrift þar og hefst útsending 19:50 en einnig má stóla á streymi á netinu ef hinum og þessum síðum.

Mín spá: Ég spái því að við tökum þetta 2-1 með mörkum frá Giroud og Ramsey í seinni hálfleik eftir að hafa lent undir snemma í fyrri hálfleik.
Aftur á móti þar sem ég er með mjög gott lið í Fantasy þá vill ég að City haldi hreinu fram að 70. mínútu og að Kolarov þurfi að fara af velli með lítilsháttar meiðsli. Þá muni Arsenal vélin detta í gang og Ramsey hendi kannski í 2 mörk (helst 3) og Özil leggi þau öll upp.
Giroud má líka pota einu inn þar sem enginn af mínum vinum sem ég er í keppni við er með hann í liðinu. Til að hafa þetta raunhæft má þetta enda 3-0 þannig að ég fái clean sheet fyrir bæði Bellerín og Kolarov og gommu af stigum fyrir Özil og Ramsey.

 

– Símon Rafn

Comments

comments