Uncategorized — 03/12/2013 at 17:39

Upphitun: Arsenal – Hull City

by

Arsenal fær nýliðana Hull City í heimsókn á morgun kl. 19:45. Bæði lið áttu góða helgi en eins og flestir vita unnu Arsenal góðan 0-3 útisigur á Cardiff og Hull City skellti Liverpool 3-1.

Hull var síðast í efstu deild á árunum 2008-2010 og þó það hljómi fáránlega voru rimmurnar á milli þessara liða eins og heitustu nágrannaslagir. Það byrjaði auðvitað með því að Hull vann óvæntan 1-2 sigur á Emirates þann 17. september 2008 sem mig grunar að sé enn í fersku minni stuðningsmanna Arsenal. Arsenal vann síðari leikinn í Hull 3-1 en liðin mættust svo aftur í 8-liða úrslitum bikarsins þar sem leikar enduðu 2-1 með sigurmarki frá Gallas. Cesc Fabregas var upp í stúku á þeim leik en að leik loknum gekk hann inn á völlinn til að fagna sigrinum. Allt varð brjálað eftir leik þar sem að Phil Brown vildi meina að Cesc hefði hrækt framan í aðstoðarmann sinn. Tímabilið á eftir vann Arsenal báða leiki sína en leikmönnum lenti heldur betur saman á Emirates þegar að Nasri traðkaði á Richard Garcia. Flestir stuðningsmenn Arsenal voru því fegnir þegar Hull féll um vorið og því lausir við þessa nýju erkifjendur.

HullArsenal-melee_2418491

Þeir eru hins vegar mættir að nýju og sitja í 10. sæti eftir 13 umferðir með 17 stig. Hull hafa spilað sex leiki á útivelli og tapað fimm en unnið einn. Þeim til varnar voru þetta ekki auðveldustu útivellir í deildinni en þeir hafa farið á Stamford Bridge, White Hart Lane, Etihad og St. Mary’s. Fyrir utan 4-1 tap gegn Southampton eru þeir ekki að tapa stórt. City og Chelsea unnu þá 2-0 á meðan Tottenham skoraði 1 mark og hélt hreinu. Þannig að þó að Arsenal eigi að sjálfsögðu að vinna Hull á heimavelli er ekkert endilega víst að það verði flugeldasýning.

Hull liðið er þokkalega mannað en þeir hafa fengið til sín nokkra leikmenn sem þóttu ekki nógu góðir fyrir stóru liðin. Jake Livermore (lán) og Tom Huddlestone komu frá Tottenham og hafa myndað þokkalega sterkt par á miðjunni. Robbie Brady var aldrei að fara að brjótast inn í aðallið Man Utd. en hann gegnir stóru hlutverki hjá Hull og er þeirra markahæsti maður til þessa með 3 mörk (2 úr vítum). Miðjumaðurinn Conor Henderson gekk svo til liðs við þá í sumar frá Arsenal en hefur aðeins komið einu sinni inn á sem varamaður í Capital-bikarnum. Aðrir leikmenn sem vert er að nefna eru Yannick Sagbo (2 mörk), Maynor Figueroa, Sone Aluko og Curtis Davies.

Arséne Wenger viðurkenndi það á fréttamannafundi í dag að hann komist ekki hjá því að rótera í liðinu án þess þó að skapa eitthvað ójafnvægi. Hann gaf í skyn að bakverðirnir þyrftu á hvíld að halda en það er næsta öruggt að Carl Jenkinson verði í byrjunarliðinu á morgun þar sem að Sagna er að glíma við meiðsli aftan í læri. Monreal gæti mögulega dottið inn og spilað sinn fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni á tímabilinu. Wenger vildi meina að miðvarðastöðurnar taki minna á líkamlega en meira á einbeitinguna svo það er ólíklegt að hann fari að gera breytingar þar. Miðjan er náttúrulega aðal hausverkurinn þessa dagana, Flamini kemur líklega aftur inn og Rosicky gæti leist Cazorla af hólmi. Svo er það stóra spurningin með Giroud, er hann að fara að byrja alla leiki þangað til að hann getur ekki meir? Ég myndi segja að það væri gott tækifæri fyrir Wenger að prufa Walcott frammi á heimavelli á móti Hull og ég held að hann geri það.

Screen Shot 2013-12-03 at 5.11.27 PM

Svei mér þá, ég held að muni aldrei giska á rétt byrjunarlið þegar meiðslalistinn er eins stuttur og raun ber vitni en það verður að velta hlutunum fyrir sér. Arsenal vinnur þennan leik 2-0 með marki frá Walcott og heldur betur óvæntri sleggju frá Jenkinson. Heyrðuð það fyrst hér!

TG

Comments

comments