Uncategorized — 07/12/2013 at 14:48

Upphitun: Arsenal – Everton

by

Arsenal tekur á móti Everton á Emirates á morgun kl. 16:00. Everton gerði góða ferð á Old Trafford í vikunni og gerði sér lítið fyrir og vann óvæntan sigur. Everton hefur aðeins tapað einum leik á leiktíðinni en tapið kom gegn Man City á útivelli. Þeir hafa jafnframt sigrað 7 sinnum en gert jafntefli 6 sinnum og situr í 5. sæti þegar þetta er skrifað með 27 stig. Sagan er með Arsenal í þessum leik en aldrei hefur Everton komið á Emirates og náð í þrjú stig. Ekki nóg með það heldur hefur Arsenal ekki tapað gegn Everton á heimavelli síðan Wenger tók við.

En Everton liðið hefur sjaldan litið eins vel út og það gerir núna. Loksins eru þeir komnir með almennilegan framherja í Romelu Lukaku sem hefur skorað 8 mörk á leiktíðinni. Hann vill líklega gera báða sína vinnuveitendur glaða með því að sigra Arsenal en eins og flestir vita er hann í láni frá Chelsea. Kevin Mirallas og Gerard Deulofeu eru alltaf ferskir og sjá til þess að enginn missi einbeitinguna á meðan leik stendur. Gareth Barry hefur svo upplifað endurnýjun lífdaga með því að færa sig um set og vera aðal maðurinn á miðjunni. Sem betur fer eru Arsenal lausir við föstu leikatriðin hans Leighton Baines en í hans stað hefur Bryan Oviedo komið inn og staðið sig vel og skorað 2 mörk. Það er því af nógu að taka hjá Everton sem koma ekki til með að gefa Arsenal neinn frið á morgun.

Wilshere_Mirallas

Báðum leikjunum á síðasta tímabili lyktaði með jafnteflum, markalausu á Emirates og 1-1 á Goodison Park. Liðin hafa verið að skora lítið í síðustu fjórum viðureignum og leikirnir hafa einkennst af mikilli baráttu og hvorug lið að vaða í færum. Það sem kannski bar hæst á góma er liðin mættust á Emirates í vor var þegar Mirallas sprautaði vatni á Jack Wilshere er leikmenn gengu til búningsherbergja í hálfleik. Furðuleg uppákoma og Wilshere að vitaskuld ekki sáttur.

Screen Shot 2013-12-07 at 2.32.40 PM

Bacary Sagna er enn meiddur og því líklegast að Carl Jenkinson haldi áfram að leysa stöðu hans í hægri bakverðinum. Þetta veikir liðið talsvert og nokkuð ljóst að Everton mun leggja áherslu á að sækja á kantinn hans CJ. En þetta er sömuleiðis frábær leikur fyrir CJ til að sanna sig og vonandi rís hann upp. Flamini gæti verið tæpur eftir að hafa meiðst lítillega á nára gegn Hull og þá myndi Arteta taka hans stöðu á miðjunni gegn sínum gömlu félögum. Mikið álag hefur verið á Özil undanfarið og spurning hvort að Wenger hvíli hann en ég á ekki von á því.

Þetta verður erfiður leikur en Arsenal er toppliðið og á að klára leik eins og þennan á heimavelli. Þeir ná að pota inn einu marki en það mun vera Per nokkur Mertesacker með þýskan skalla eftir hornspyrnu.

TG

Comments

comments