Uncategorized — 31/01/2014 at 10:40

Upphitun: Arsenal – Crystal Palace

by

Chamakh vs. Arteta

Það verður sannkallaður grannaslagur á sunnudaginn er Arsenal tekur á móti strákunum hans Tony Pulis í Crystal Palace. Svo skemmtilega vill til að undirritaður verður á meðal áhorfenda á sunnudaginn ásamt fleiri Íslendingum svo að þessi pistill verður sérstaklega hátíðlegur. 

Maður hefur verið að fylgjast grannt með leikmönnum í síðustu leikjum og krossað fingur um að geta séð eins sterkt byrjunarlið og völ er á gegn Palace. Flamini stimplaði sig út með glórulausri tæklingu á landa sínu Schneiderlin og fékk að launum rauða spjaldið. Það verður mikill missir af honum í næstu leikjum og þá sérstaklega gegn Liverpool og Manchester United. Ramsey og Walcott eru að sjálfsögðu meiddir til lengri tíma og Jack Wilshere er mjög svo tæpur fyrir helgina. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Rosicky er klár eftir ljótt nefbrot gegn Aston Villa og S. Cazorla er heill heilsu. Byrjunarliðið gæti því litið svona út:

Screen Shot 2014-01-30 at 5.49.29 PM

Stóra spurningin er eflaust sú hver eigi að fylla skarð Flamini. Að mínu mati stendur valið á milli Chambo og Rosicky. Ég ætla að skjóta á að buffið fái að byrja og verður áhugavert að fylgjast með honum í hlutverki miðjumanns sem hans framtíðar staða skv. Wenger. Monreal verður bekkjaður eftir dapra frammistöðu gegn Southampton og Gibbs kemur inn í staðinn. Þetta lið á að sjálfsögðu að leggja Crystal Palace af velli og koma sér í toppsætið að nýju.

Ég myndi samt ekki búast við flugeldasýningu. Tony Pulis er allt öðruvísi stjóri en Ian Holloway og við þekkjum það frá tíma hans í Stoke að liðin hans eru vel skipulögð og föst fyrir. Hann hefur rifið liðið upp síðan hann tók við, 11 leikir, 5 sigrar, 1 jafntefli og 5 töp og 14. sæti með 23 stig. Heimavöllurinn þeirra hefur verið að gefa vel, 4 sigra og 1 jafntefli. Inni í þessum leikjum eru útileikir gegn Man City og Chelsea sem töpuðust 1-0 og 2-1. Þannig þeir koma ekki endilega á Emirates til að vinna en þeir munu svo sannarlega verja stigið sitt.

Okkar fyrrum leikmaður Marouane Chamakh er án efa þeirra hættulegasti maður og þá sérstaklega gegn Arsenal. Hann til að mynda fiskaði Mikel Arteta útaf í síðasta leik og hver veit hvað hann gerir á sínum gömlu heimaslóðum. Jason Puncheon er svo áhugaverður karakter sem getur á góðum degi gert mönnum lífið leitt, en yfirleitt á hann slæma daga eins og sást á vítapunktinum á White Hart Lane.

Arsenal hefur unnið minni liðin á Emirates 2-0 í flestum tilvikum (Liverpool, Hull City, Cardiff og Fulham). Það eru ekki ólíkleg úrslit á sunnudaginn og spái ég að leikurinn fari þannig. Eftir markalausan fyrri hálfleik heldur Cazorla áfram að skora og Giroud skorar aftur framhjá Speroni.

Það er ósk mín að menn komist heilir frá þessum leik enda hörð barátta framundan í deild, bikar og meistaradeild. Byggja þarf góðan grunn og það hefst með þremur stigum og sannfærandi sigri á sunnudag!

TG

Comments

comments