Uncategorized — 21/12/2013 at 13:14

Upphitun: Arsenal – Chelsea

by

Á Þorláksmessukvöld mætast stálin stinn, Arsenal og Chelsea og hafa þar bæði lið margt að sanna. Eftir frábært gengi það sem af er tímabili hefur Arsenal-vélin hikstað í síðustu þremur leikjum og aðeins hirt 1 stig úr þeim (Everton, Napoli, Man City). Það er því tími til kominn að hirða þrjá punkta og tryggja efsta sætið allavega yfir aðfangadag og jóladag svo maður geti nú borið höfuðið hátt í jólaboðunum.

Það eru reyndar slæmar og góðar fréttir varðandi leikinn. Þær slæmu eru þær að José Mourinho er kominn aftur á brúnna og það veit ekki á gott enda hefur Wenger aldrei haft yfirhöndina þegar liðin hafa mæst með hann við stjórnvölinn. Góðu fréttirnar eru þær að Didier Drogba er ekki lengur í herbúðum Chelsea en hann sá um að gera Arsenal-mönnum lífið leitt með skoruðum mörkum í nánast hverjum einasta leik sem hann spilaði gegn þeim undir stjórn Mourinho.

Ramsey Mikel

Liðin mættust á Emirates í Capital One bikarnum fyrr á leiktíðinni og hafði Chelsea þar betur 0-2 eftir að hafa komist á bragðið eftir skelfileg varnarmistök hjá Carl Jenkinson. Hann situr vonandi sem fastast á tréverkinu að þessu sinni enda ekki pláss fyrir veikleika þegar kemur að því að spila við Chelsea. En Chelsea eru sömuleiðis dottnir úr keppni eftir að hafa tapað gegn Sunderland í vikunni 2-1 eftir framlengingu.

Þrátt fyrir að Chelsea sitji í 3. sæti fyrir leikinn verður ekki þar með sagt að þeir hafi valsað í gegnum leikina sína. Þeir hafa spilað átta sinnum á útivelli, unnið þrjá, gert tvö jafntefli og tapað þrisvar sinnum. Töpin komu gegn Newcastle, Stoke og Everton en útivallarformið hefur líklega oft litið betur út hjá Chelsea. Arsenal hafa hins vegar náð í 20 stig af þeim 24 sem í boði hafa verið á heimavelli og aðeins tapað stigum gegn Aston Villa og Everton. Það er því upplagt halda góðu formi á heimavelli áfram en eins og við Arsenal stuðningsmenn vitum hefur Mourinho sérstakt lag á því að eyðileggja leikstíl Arsenal með skipulögðum varnarleik.

Screen Shot 2013-12-21 at 12.38.36 PM

Eins og flestir vita er Jack Wilshere kominn í tveggja leikja bann sem á bara eftir að gera honum gott. Koscielny er tæpur svo ég set Vermaelen í hans stað. Ef Wenger ætlar að eiga einhvern séns á miðjunni þá spilar hann Flamini en ekki Arteta sem virðist hreinlega vera búinn að missa snerpuna og hefur ekki það sem til þarf til að standa í bestu miðjumönnum Englands. Lukas Podolski er svo kominn til baka og munum við örugglega sjá nafnið hans á bekknum.

Fyrir leikina gegn Everton, Man City og Chelsea hefði ég verið sáttur með 4 stig þó að 6 stig hefðu alveg verið raunhæf líka. Það væri skelfilegt að taka bara 1 eða 2 stig úr þessum leikjum svo ég vona að hvíldin hafi gert leikmönnum Arsenal gott og þeir bindi enda á Mourinho grýluna miklu með sigri!

TG

Comments

comments