Leikjaumfjöllun, Upphitun — 02/09/2016 at 10:30

UPPHITUN: Arsenal – A.C. Milan

by

arsenal milan
Fyrir þá sem bara ekki fá nóg af Arsenal og elska fótboltalega nostalgíu er áhugaverður leikur laugardaginn 3. september. Þá eigast við goðsagnir Arsenal og goðsagnir A.C. Milan en leikurinn er góðgerðarleikar fyrir The Arsenal Foundation. Það eru góðar líkur á að þetta verði frábær knattspyrnuleikur en á sama tíma góðar líkur á einhverju bumbubolta dundi en miðað við gæði leikmannanna sem munu taka þátt má segja að meiri líkur séu á hinu fyrra.

Jens Lehmann, David Seaman, Martin Keown, Marc Overmars, Ray Parlour, Emmanuel Petit, Pascal Cygan, Gilberto, Nigel Winterburn, Kolo Toure, Robert Pires, Freddie Ljungberg, Sylvain Wiltord, Anders Limpar, Gilles Grimandi og Kanu eru þeir leikmenn sem Arsenal mun tefla fram. Liðinu verður að sjálfsögðu stýrt af mikilli goðsögn og hagfræðingi en auðvitað er það herra Arsene Wenger. Honum innan handar verður ekki minni maður en við eigum öll að kannast við hann af hliðarlínunni frá bestu árum Wenger hjá klúbbnum, en það er að sjálfsögðu Pat Rice.
Lið A.C. Milan er ekki af verri endanum og eflaust mundu einhverjir telja það sterkara en hópurinn samanstendur af Christian Abbiati, Dida, Cafu, Paolo Maldini, Demetrio Albertini, Alessandro Costacurta, Paolo Di Canio, Edgar Davids, Marcel Desailly, Daniele Massaro, Marco Simone, Angelo Carbone, Dario Simic, Giuseppe Favalli, Kakhaber Kaladze, Zvonimir Boban, Massimo Ambrosini, Stefano Eranio, Giuseppe Pancaro, Ibrahim Ba, Serginho og Christian Vieri. Mafíuforinginn Fabio Capello sér um að stýra liði Milan manna en hann tekur þessu verkefni eflaust fagnandi enda ekki stýrt liði síðan hann var látinn fara frá Rússlandi í fyrrasumar.

Hvar eru þeir nú?

Jens Lehmann

Eftir að hafa sett hanskana í ruslið eða hilluna eða eitthvað álíka hefur Lehmann unnið sem sendiherra á vegum ýmissa samtaka en þar má helst nefna UNICEF. Hann kíkti við hjá okkur á æfingarsvæðinu 2013 til að afla sér þjálfararéttinda og sá um þjálfun ungu strákanna okkar í einhvern tíma. Núna síðast hefur hann starfað hjá Sky í Þýskalandi sem gagnrýnir og lýsir en BBC notfærði sér krafta hans í lýsingum á Evrópumótinu í sumar.

David Seaman

David Seaman hefur verið iðinn við kolann eftir að hann hætti knattspyrnustundun. Hann spilaði fyrir England í Soccer Aid góðgerðarleikjum 2012 og 2016 þannig Arsenal geta farið öruggir inn í leikinn með hann í rammanum, þó það vanti að vísu mottuna og taglið sem gaf alltaf ákveðna öryggistilfinningu.
Hann gekk til liðs við þjálfarateymi Terry Venables hjá Wembley FC fyrir FA Cup leiki þeirra 2012 en þetta starf fól í sér aðeins markaðs og auglýsingaherferð hjá Budweiser sem voru aðal styrktaraðilar bikarsins það tímabilið.
Seaman hélt sér rólegum næstu ár þar til hann tók þátt í raunveruleika fiskiþættinum The Big Fish Off hjá ITV. Núna síðast tók hann að sér sendiherrastarf hjá veðmálafyrirtækinu 888Sport á meðan Evrópumótið fór fram.

Martin Keown

Martin Keown lagði skóna á hilluna 2005 og tók þá við varnarþjálfun á vegum Arsenal í örskamman tíma og byrjaði með því að afla sér þjálfararéttinda. Lítið er um hann að segja en hann tók þátt í sama verkefni og Seaman tók þátt í fyrir Terry Venables og Wembley FC en það voru einungis nokkrir leikir í FA Cup.
Í dag starfar hann sem leikjagagnrýnir hjá BBC í Match of the Day þættinum og tekur einnig að sér umfjöllun um Meistaradeildina fyrir írsku stöðina TV3. Í sumar færði hann sig úr settinu sem gagnrýnir og lýsti leikjum á Evrópumótinu fyrir BBC.

Marc Overmars

Eftir að hann hætti sem leikmaður 2009 fór hann aftur í heimasæluna hjá Go Ahead Eagles og tók að sér starf sem yfirmaður knattspyrnumála. Hann fékk nóg af því starfi 2012 og færði sig yfir til Ajax og fékk aftur starf sem yfirmaður knattspyrnumála þar.
Hann rak ásamt föður og bróður sínum fornbílasölu í einhvern tíma en í dag hafa þeir selt fyrirtækið. Einnig er hann annar eigandi veitingastaðs í heimabæ sínum Epe og er partur af fjölskyldufyrirtækinu Overmars Vastgoed BV sem að sérhæfir sig í fasteignasölu.

Ray Parlour

Ray Parlour lagði skóna á hilluna 2007 eftir að hafa spilað í 14 ár með Arsenal, 3 með Middlesbrough og eitt með Hull. Síðan þá hefur hann starfað sem gagnrýnandi bæði í útvarpi og sjónvarpi fyrir talkSPORT, Radio 5 Live og Sky Sports.
Þið gátuð eflaust giskað á það sem kemur næst, en hann tók líka þátt í Wembley FC dæminu hjá Terry Venables 2012 og hitti þar ofangreinda fyrrum liðsfélaga. Sama ár tók hann tíma í það að hitta íslenska Arsenal klúbbinn í afmælisferðinni sem farið var í síðla árs 2012.
Hann stofnaði Spirit Events sem er einhverskonar viðburðafyrirtæki sem sér um að halda utan um ráðstefnur, verðlaunaafhendingar og vörukynningar.
Í maí 2016 gaf hann út sjálfsævisögu sína, The Romford Pelé en í henni má lesa margar skemmtilegar sögur úr boltanum. Bókin naut mikilla vinsælda og náði inn á topp 10 best seldu bækur Sunday Times.

Emmanuel Petit

Emmanuel Petit hefur verið duglegur að láta í sér heyra síðan hann hætti knattspyrnuiðkun 2005. Hann hefur verið duglegur að tala í fjölmiðlum en við skulum láta það eiga sig í þessari upphitun.
Frá 2011 hefur hann verið sendiherra Heimsmeistarakeppni heimilislausra og þjálfaði franska landsliðið í þeirri keppni 2014.
Þrátt fyrir að vera tíður gestur í setti sem gagnrýnandi var það ekki fyrr en í mars 2015 sem hann tók fyrst að sér starf gagnrýnanda í bresku sjónvarpi, en það var í umfjöllun ITV um Meistaradeildina. Í sumar var hann svo fenginn til að fjalla um Evrópumótið í sumar af sömu stöð.

Pascal Cygan

Ehh.. var ekki verið að tala um goðsagnir?
Annars fannst ekkert um hvað hann er að gera í dag nema það að hann hefur verið starfandi hjá ýmsum liðum í Evrópu, þar á meðal í Þýskalandi og Ítalíu, til að afla sér þjálfararéttinda. Hann starfaði í 3 mánuði hjá Fenerbache en þurfti að hætta snemma vegna ofnæmis sem hann hafði fyrir grasinu á æfingasvæðinu þeirra.
Í mars 2014 fannst frétt þess efnis að hann væri við það að ganga til liðs við stjórn Arsenal sem Strategic Football Consultant, hvað sem það er.

Gilberto Silva

Eftir að leggja skóna á hilluna 2015 byrjaði Gilberto að læra almenna stjórnun fyrirtækja þar sem hann hafði áhuga á vinnu þess eðlis innan klúbbs í framtíðinni. Hann heimsótti hin ýmsu lið Evrópu til að kynna sér starfsemi þeirra. Ekki leið á löngu þar til hann fékk starf sem yfirmaður knattspyrnumála hjá gríska liðinu Panathaikos, eða í maí 2016.
Ásamt því hefur hann verið starfandi hjá grísku sjónvarpsstöðinni OTE TV sem leikjagagnrýnir.

Nigel Winterburn

Eftir langan feril í ensku úrvalsdeildinni, og þá einna helst hjá Arsenal, lagði Winterburn skóna á hilluna árið 2003 eftir að hafa leikið með West Ham. Hann tók við sem varnarþjálfari hjá Blackburn þegar að Paul Ince var ráðinn þangað en var samstundis látinn fara þegar að Ince var rekinn úr starfi sínu sem knattspyrnustjóri eftir aðeins 6 mánuði.
Winterburn vinnur í dag sem sjálfstæður fótboltagagnrýnandi og hefur komið við sögu hjá Sky Sports og talkSPORT ásamt því að skrifa fyrir Daily Star.

Kolo Touré

Kolo Toure er enn spilandi knattspyrnu í dag en vinnuveitandi hans þessa stundina er Celtic í Skotlandi. Þangað fór hann í sumar til að ganga til liðs við gamla þjálfara sinn, Brendan Rodgers en þeir höfðu áður unnið saman hjá Liverpool. Fyrir dvöl sína hjá Liverpool spilaði hann fyrir grænu skóga ($$$) Man City.

Robert Pires

Hinn hárfagri frakki, Robert Pires henti skónum á hilluna árið 2011 eftir stutta dvöl hjá Aston Villa. Aftur á móti reif hann þá úr rykinu á þessari hillu sumarið 2014 til að kynna nýja ofurdeild Indlands, en hann gerði það ásamt ýmsum stórum nöfnum úr fótboltanum en þar má helst nefna Fredrik Ljungberg, Alessandro Del Piero, David James, Mikael Silvestre og David Trezeguet. Hann spilaði með indverska liðinu FC Goa og spilaði með þeim þangað til samningi hans var rift í mars 2015. Í febrúar þessa árs tilkynnti hann að hann væri hættur knattspyrnuiðkun.
Í sumar vann hann sem leikrýnir fyrir stöðina beIN og sá um að fjalla um Evrópumótið en honum þótti takast það vel, en hann myndaði eitrað teymi í settinu með annarri franskri goðsögn, Marcel Desailly og Arsene Wenger.

Fredrik Ljungberg.

Hinn sykursæti Svíi, Fredrik Ljungberg hætti iðkun fótboltans í ágúst 2012. Eftir að hafa hætt spilun fótbolta lagði hann land undir fót og hóf að kynna ensku úrvalsdeildina í starfi sendiherra.
Með æskuvinum sínum úr sænska bænum Halmstad opnaði hann íþróttabar 2013 og hlaut barinn nafnið Freddies. Allir stuðningsmenn Arsenal hvattir til að renna niður nokkrum köldum þar ef þeir eiga leið hjá.
Fótboltinn náði Ljungberg aftur á sitt vald og gekk hann til liðs við Mumbai City til að kynna indversku ofurdeildina. Honum og stuðningsmönnum liðsins til mikilla vonbrigða náði hann aðeins að spila 4 leiki vegna meiðsla.
Í janúar 2016 gekk hann svo til liðs við Arsenal sem u15 ára þjálfari til að afla sér þjálfararéttinda.

Sylvain Wiltord

Ekki fannst mikið um Wiltord og hvað hann hefur verið að fást við síðan hann lagði skóna á þessa hillu, en það gerði hann í lok tímabils 2011/12 eftir dvöl hjá Nantes. Hann hefur lengi verið fáanlegur sem njósnari í Football Manager þannig það gæti vel verið að hann hafi eitthvað unnið við það eftir að ferlinum lauk.
Árið 2015 tók hann þátt í franska raunveruleikaþættinum Dropped fyrir stöðina TF1, en í þeim þætti var honum ásamt ýmsu öðru íþrótta afreksfólki komið fyrir í fjandsamlegu umhverfi og það látið bjarga sér sjálft. Daginn eftir að Wiltord var felldur úr leik átti sér stað þyrluslys en í því létust 10 manns, þar á meðal 3 keppendur og 5 manns sem vann að þættinum.
Í april 2016 ‚droppaði‘ hann sprengju á samskiptamiðlinum Twitter en þar sagðist hann vilja taka skóna af hillunni, 41 árs gamall.

Anders Limpar

Svíinn Anders Limpar er merkilegur fyrir þær sakir að hann var einn af fáum erlendu leikmönnunum sem spiluðu í ensku úrvalsdeildinni þegar hún var sett á laggirnar 1992. Hann lagði skóna á góða hillu sem eflaust var keypt í Ikea árið 2000 og tók við sem þjálfari unglingaliðs Djurgårdens IF áður en hann fékk starf sem aðstoðarþjálfari sænska annarrar deildar liðsins Sollentuna United, en hann heldur því starfi enn í dag.
Síðan hann hætti að spila fótbolta hefur hann opnað bar í Stokkhólmi sem bar hið ágæta nafn The Limp Bar en barinn er ekki starfandi lengur. Fjárhættuspilarar gætu kannast við síðuna BestBetToday en hann var einn af stofnendum síðunnar.
Árið 2015 tók hann þátt í sænska raunveruleikaþættinum The Great Adventure, en sá þáttur er einmitt fyrirmynd þáttarins Dropped sem að Sylvain Wiltord tók þátt í, gaman að því. Limpar gat fagnað í lok seríunnar því ólíkt Wiltord sem var sleginn út þá stóð Limpar uppi sem sigurvegari þáttaraðinnar.
Í dag er Limpar meðeigandi sænska plastkassafyrirtækisins Super Lock og vinnur einnig sem dreifingaraðili fæðubótafyrirtækisins Kyäni.

Gilles Grimandi

Gilles Grimandi hefur ekki farið langt frá fótboltaheiminum síðan hann hætti að spila sjálfur 2003 en hann fékk starf yfirmanns knattspyrnumála í franska liðinu ASOA Valence í frönsku þriðju deildinni árið 2004. Þessi eflaust ágæti klúbbur hætti starfsemi sinni fyrir tímabilið 2005/06 vegna gjaldþrots og greip Arsene Wenger tækifæri og réði Grimandi sem yfirnjósnara Arsenal í Frakklandi. Hann tók þátt í leiknum sem tileinkaður var Dennis Bergkamp á Emirates vellinum árið 2006 og átti vafasama tæklingu á hollensku goðsögninni Edgar Davids, en hann tekur einmitt þátt í leiknum núna á laugardaginn líka.
Árið 2007 var Grimandi orðaður við starf yfirmanns knattspyrnumála hjá Arsenal en ekkert varð úr þeim orðrómi og heldur hann enn starfi yfirnjósnara Arsenal í Frakklandi.

Kanu

Hinn hávaxni og hárfagri Nígeríumaður Nwankwo Kanu sagði skilið við knattspyrnuiðkun árið 2012 eftir dvöl hjá Portsmouth. Eftir að hafa hætt fótboltaiðkun er hann hve frægastur fyrir góðgerðarmál en hann var meðal annars stofnandi Kanu Heart Foundation sem að hjálpar börnum í Afríku sem eiga við hjartavandamál að stríða. Einnig er hann sendiherra UNICEF í Afríku.
Árið 2015 fór hann allt aðra leið en í góðgerðarmál en eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð opnaði hann fyrirsætuskrifstofu og ljósmyndastofu í Nígeríu að nafni Papillo, en það er gælunafn hans.
Ljósmyndastofan hans er ekki bara notuð í ljósmyndatökur heldur sér hún einnig um myndbandsvinnslu og hýsir tónlistarmyndbandaupptöku.
Ekki er sagan öll þar en hann opnaði líka fótboltaskóla í Kanada sem bíður upp á sérhæfða fótboltakennslu fyrir börn á aldrinum 6 til 17 ára.

Hvar, hvenær og hvernig get ég séð leikinn?

Leikurinn verður háður laugardaginn 3. September eins og áður hefur komið fram og fyrsta flautið verður kl 14:00 Í BRETLANDI. Bretland er klukkutíma á undan okkur þannig að þeir sem vilja horfa á leikinn í íslenskri stofu þurfa að stilla sig eftir því.
Arsenal.com verður með frítt streymi á leikinn á heimasíðu sinni þannig að allir geta notið þess að sjá gamla karlmenn sparka í leðurtuðru. Opnað verður fyrir útsendinguna 12:30.

Heimild

Comments

comments