Leikjaumfjöllun, Ósorterað, Upphitun — 19/08/2016 at 19:56

UPPHITUN: Leicester – Arsenal

by

CPwXJiwWEAAqgIC
Fögnuðurinn stóð ekki lengi síðustu helgi, fögnuðurinn til að fagna því að deildin væri byrjuð aftur. Í rauninni var ekkert fagnað yfir höfuð. Aftur á móti er komin ný vika, ný helgi, nýr leikur en enginn nýr leikmaður kominn. Við bíðum áfram en á meðan við bíðum eru leikir til að horfa á. Í þetta sinn eigum við leik gegn Englandsmeisturum Leicester, eins skrítið og það er að segja það. Leiceister mæta í þennan leik staðráðnir í að bæta upp fyrir vandræðalegt tap gegn Hull í fyrstu umferð og vilja eflaust reyna að verja titilinn með einhverri sæmd. Arsenal þarf hinsvegar að rífa sig upp af rassgatinu eftir skell gegn Liverpool. Bæði lið fara inn í þennan leik staðráðin í að sækja öll stigin sem verða í boði.

Hver er mótherjinn?

Leicester City Football Club var stofnað 1884 sem gerir það að eldgömlum klúbbi, en það var stofnað sem Leicester Fosse FC. Árið 1919 var nafnið sem við þekkjum í dag hinsvegar tekið upp. Liðið býr ekki yfir neinni spes sögu en ásamt því að hafa unnið efstu deild á Englandi hafa þeir unnið Championship deildina sjö sinnum. Þeir hafa afrekað það að vinna FA Cup fjórum sinnum en eiga langt í land með að ná okkar ástkæra liði sem hefur unnið bikarinn tólf sinnum. Liðið leikur heimaleiki sína á King Power vellinum sem byggður var árið 2002, en leikurinn um helgina fer einmitt fram á honum. Völlurinn var upprunalega skírður The Walkers Stadium en nafninu var breytt 2011 þegar nýjir eigendur tóku við. Hann tekur 32,312 manns í sæti en það gerir hann 20. stærsta völl Englands.

Þjálfarinn

Þjálfari Leicester er hinn ítalski Claudio Ranieri. Ranieri hefur átt skrautlegan feril sem einkennist af lægðum og hæðum. Hann hefur meðal annars þjálfað Valencia, Fiorentina, Napoli, Juventus, Monaco og Grikkland. Eins og er er hann líklega hve frægastur fyrir afrek sitt hjá Leicester en þar vann hann deildina á sínu fyrsta tímabili. Sú ákvörðun hjá Leicester var mjög gagnrýnd á sínum tíma enda hafði hann verið rekinn í sínu síðasta starfi frá Grikklandi. Einnig má benda á það að hann hefur upplifað sömu martröðina tvisvar en hún er sú að hann hefur tvisvar verið rekinn frá nýríkum klúbbi til að opna leiðina yfir yngri þjálfara frá Portúgal, þrátt fyrir góðan árangur. Hjá Chelsea var hann rekinn til að búa til pláss fyrir hinn alræmda Jose Mourinho, þrátt fyrir að hafa vera með fínt ‚record‘ hjá miðlungsliði Chelsea á þeim tíma. Í seinna skiptið var hann látinn fara frá Monaco eftir að hafa unnið Ligue 2 (afrek?) og náð 2. sæti tímabilið eftir að hafa komist upp. Maðurinn sem tók við var Leonardo Jardim. Þrátt fyrir að hafa eytt háum fjárhæðum í leikmenn hefur Monaco ekki tekist að ná sömu hæðum og Chelsea, enda kannski ekki skrítið þegar þú ert í deild með PSG.
Ranieri lætur Leicester spila hið klassíska og óspennandi útlítandi 4-4-2. Hann breytti ekki mikið frá því sem fyrir var enda gerast leikkerfi ekki enskari en 4-4-2 en hann breytti áhersluatriðunum. Liðið pressar stíft á mótherjann og reynir að vinna boltann hratt til baka og beitir svo skyndisóknum. Leikmenn gefa mótherjanum engan frið til að fóta sig. Mótherjinn þarf því í rauninni að brjóta niður 3 varnarlínur.

Lykilmenn & meiðsli

Lykilmenn? Er ekki nóg að segja að Jamie Vardy er algjör lykilmaður í þessu liði. Snöggur leikmaður sem nýtist hve best í að hlaupa inn fyrir varnir andstæðingsins í skyndisóknum. Hann þarf að passa vel og kannski er lán í óláni að Mertesacker sé ekki að fara að spila á móti honum. Annar leikmaður sem er líka snöggur er Ahmed Musa. Í rauninni er hann ógeðslega snöggur sem gerir leikinn enn erfiðari. Margir spá því að hann verði öflugur í vetur í sóknarlínu Leicester með Vardy, vonum bara að hann bíði með það þar til eftir leikinn gegn okkur. Síðan þarf náttúrulega varla að nefna Riyad Mahrez en þann leikmann eigum við að þekkja enda hefur hann verið orðaður við liðið góðan part sumarsins en með sínum hættulegu hlaupum inn á miðju af kanti býr hann annaðhvort til marktækifæri eða þá að skora sjálfur. Lið Leicester er ágætlega meiðslafrítt en enginn leikmaður þeirra er á meiðslalista Physioroom eins og er. Robert Huth er svo líklegur til að koma aftur í lið Englandsmeistaranna (þetta er ennþá skrítið) eftir að hafa verið í banni í síðasta leik.

Líkleg byrjunarlið

580

Skemmtilegt myndband

Comments

comments