Uncategorized — 18/02/2012 at 20:32

Sunderland náði fram hefndum

by

Líkt og um síðustu helgi heimsótti Arsenal lærisveina Martins O´neal í Sunderland í 5. umferð FA-Bikarsins. Heimamenn áttu harm að hefna eftir að Thierry Henry hafði skorað sigurmark Arsenal á loka mínútum leiksins fyrir viku síðan. Arsenal-menn höfðu einnig ýmislegt að sanna eftir afleidda frammistöðu í miðri viku gegn AC-Milan í Meistaradeild Evrópu.

Leikurinn fór rólega af stað og mun fyrri hálfleikur seint fara í sögubækurnar fyrir áferðafallega knattspyrnu enda lítið um færi á báða bófa. Næst því að skora fyrir Arsenal komst Gervinho eftir góða sendingu Van Persie inn fyrir vörn Sunderland. Skot Gervinho var hins vegar vel varið af Mignolet sem stóð milli stanganna í marki heimamanna.

Á 40. mínútu dró til tíðinda á þegar Kieran Richardson tókst að skora með góðu skoti. Sebastian Larsson átti aukaspyrnu frá hægri vængnum þar sem boltinn hrökk út í teiginn og Richardsson nelgdi honum viðstöðulaust í hægri hornið, óverjandi fyrir Fabianski í markinu.

Arsenalmenn náðu ekki að svara fyrir sig áður en Howard Webb flautaði til loka fyrri hálfleiks og staðan 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Arsenal sáu um að stýra ferðinni í síðari hálfleik þar sem heimamenn héldu sig til baka og freistuðu þess að beita skyndisóknum. Arsenal átti í miklum erfiðleikum með að finna glufur á varnarmúr heimamanna og var fátt um fína drætti sóknarlega. Wenger reyndi hvað hann gat að setja aukið púður í sóknina en án árangurs.

Í stað þess að Arsenalmenn næðu að jafna metin nýttu heimamenn sér klaufagang gestanna með því að skora eftir ágætis skyndisókn. Chamberlain missti þá boltann á slæmum stað og Sunderland brunaði í sókn sem endaði með því að fyrirgjöf  þeirra hafnaði í Chamberlain og þaðan fór knötturinn yfir línuna. Staðan 2-0 og rúmar 10 mínútur til leiksloka

Hvorugu liðinu tókst að skora það sem eftir lifði leiks og Sunderland náðu þar með að tryggja sér þátttökurétt í 6. umferð keppninnar. Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá leikmönnum Arsenal en þegar á hólminn er komið geta þeir engum öðrum en sjálfum sér um kennt. Úrslitin þýða að Arsenal hefur að engu að keppa nema Meistaradeildarsæti það sem eftir lifir þessa tímabils.

Comments

comments