Uncategorized — 04/02/2012 at 15:12

Öruggur 7-1 sigur á Blackburn

by

Robin Van Persie

“þessir voru í aðalhlutverki í dag”

Arsenalmenn komu ákveðnir til leiks á Emirates-leikvanginum í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Skytturnar voru ekki lengi að opna markareikninginn því strax á 2. mínútu leiksins tókst hinum funheita Robin Van Persie að koma boltanum í netið af stuttu færi. Persie afgreiddi góða sendingu frá Theo Walcott sem kom askvaðandi upp hægri vænginn. Skytturnar hans Wenger ætluðu greinilega að láta kné fylgja kviði og héldu góðri pressu í kjölfarið og voru mun líklegri til að bæta við en Blackburn að jafna metin. Það skaut því skökku við þegar gestirnir náðu að jafna 32. mínútu. Þar var að verki Morten Gamst Pedersen með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu. Szczesny var nálægt því að verja en skotið hjá Pedersen var hnitmiðað og alveg upp við markvinkilinn.

Gunners voru hins vegar ekki hættir því á 37. mínútu leiksins kom Van Persie okkar mönnum yfir á ný með marki af dýrari gerðinni. Alex Song bar þá boltann upp miðjuna og átti stórglæsilega sendingu inn fyrir vörn Blackburn þar sem Walcott kom á harðaspretti og sendi knöttinn hárfínt á Persie sem átti ekki í vandræðum með að klára færið. Einungis tveimur mínútum síðar kom þriðja mark Arsenal. Þar var að verki Oxlade Chamberlain eftir frábæra sendingu Van Persie. Chamberlain átti góða fyrstu snertingu, náði að setja Robinson í marki Blackburn niður og kom svo knettinum í autt markið. Frábær afgreiðsla og fyrsta mark þessa bráð efnilega pilts í úrvalsdeildinni staðreynd.

Ófarir blackburn voru þó langt frá því að vera búnar því Gael Givet fékk að líta rauða spjaldið á 43. mínútu leiksins eftir býsna skrautlega tveggja fóta tæklingu beint fyrir framan augun á Andre Marriner dómara. Marriner  var ekki í nokkrum vafa og sendi Givet í sturtu. Gunners voru ekki hættir í fyrri hálfleik því Vermalen var nálægt því bæta fjórða markinu við en skot hans endaði í utanverðri stönginni úr dauðafæri. Stuttu seinna flautaði Marriner til loka fyrri hálfleiks.

Gunners byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti og eftir áttundu hornspyrnu Arsenal í leiknum barst boltinn út til Arteta sem hamraði knöttinn í vinstra hornið framhjá Robinson. Staðan 4-1 og um 40 mínútur til leiksloka.  Einungis tveimur mínútum síðar bætti Chamberlain við sínu öðru marki eftir frábærann undirbúning Theo Walcott. Theo kom vaðandi upp hægri kantinn bar knöttinn inn í teig, tók tvo menn á og sendi boltann á Chamberlain sem setti boltann í nærhornið og Robinson hreyfði hvorki legg né lið.

Arsenalmenn héldu áfram að raða inn mörkum því Robin Van Persie fullkomnaði þrennu sína með góðu marki stuttu seinna. Að þessu sinni sá Francis Coquelin um undirbúninginn en hann lék í stöðu hægri bakvarðar og skilaði sínu vel. Coquelin tók vinstri bakvörð Blacburn á og átti sendingu beint á óvaldaðan Van Persie sem setti knöttinn auðveldlega framhjá Robinson sem stóð sem fyrr varnarlaus í markinu.

Við sjötta markið róaðist leikurinn mikið og fátt sem benti til þess að liðin myndu bæta við mörkum. Það reyndist þó ekki rétt því Van Persie kórónaði frábæran leik með að leggja upp mark fyrir kónginn Thierry Henry sem rak síðasta naglann í kistu Blackburn og 7-1 sigur heimamanna staðreynd. Henry hafði komið inn sem varamaður fyrir Chamberlain á 68. mínútu leiksins.

Óhætt er að segja að stuðningsmenn hafa þurft að bíða lengi eftir þessum sigri því þetta eru fyrsti sigurinn í deildinni á nýju ári. Síðasti sigurinn kom gegn Heiðari Helgusyni og félögum í QPR, 31. Desember síðastliðinn. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Sunderland sem hafa heldur betur verið á siglingu upp á síðkastið. Þessi sigur ætti þó að veit okkar mönnum sjálftraust og vonandi tekst þeim að fylgja þessum góða sigri eftir.

 

Comments

comments