Uncategorized — 14/08/2014 at 10:17

Mínar hugleiðingar

by

WP_000178

Svanberg er 35 ára Skíðdælingur sem býr á Akureyri.  Hann hefur haldið með Arsenal síðan að hann var 6 ára gamall.  Ástæða þess að hann fór að halda með Arsenal var að hann var í heimavistarskóla í sveitinni og þá varð auðvitað að vera eins og eldri strákarnir og halda með ensku liði þó svo að litlu strákarnir vissu ekki alveg hvaða lið væri hvað.  Hann hefur kristnað nokkra í kringum sig og eru 10 ára sonurinn mikill stuðningsmaður Arsenal.  Meira að segja hefur konan farið á Emirates og smitast af bakteríunni þó hún hefði hana ekki fyrir þá ferð.

Ágætu félagar, þegar að maður þarf að reyna rata á salernið á nóttunni sökum myrkurs, þá veit maður að það styttist í að biðin taki enda, og enski boltinn fari að rúlla á ný. Þannig er einmitt staðan núna og er upphitunin reyndar búin í formi þess að leikurinn um Góðgerðarskjöldinn er yfirstaðinn og vitum við allir hvernig sá leikur fór. Stóðum við uppi sem sigurvegarar á liði meistaranna frá bláa hluta Manchester. Einhverjir vilja meina að þetta hafi verið b-lið Manchester vegna þeirra leikmanna sem að ekki áttu heimagengt í leikinn en þegar að City á í hlut, þá er ekki hægt að segja að þeir séu með b-lið vegna þessa gríðarsterka leikmannahóps sem að þeir eru með. Þeir sem segja slíkt eru líkast til bara öfundaráhangendur.

En víkjum frá tali um núverandi meistara og förum að tala um verðandi meistara, eða það hlýtur allavega að vera það sem að við allir viljum. Síðan að síðasta tímabili lauk með því að við lyftum FA bikarnum, hefur eitt og annað gerst. Leikmenn hafa horfið á braut og aðrir komið í staðinn til að fylla skörðin. Þeir leikmenn sem að við höfum fengið í stað þeirra sem farið hafa lofa góðu, Deschamps vill meina að Debuchy sé betri en Sagna og vona ég að það verði niðurstaðan þegar að við vegum og metum þetta tímabil.

Ospina stóð sig vel á HM og var með bestu markvörðum Evrópu tölulega séð þegar að bornar eru saman bestu deildir Evrópu. Þannig að ég held að Pólverjinn okkar verði að vera algerlega á tánum ef hann ætlar sér að halda markmanns stöðunni.

Nýliðinn með legendary eftirnafnið, Joel Campbell, stóð sig einnig vel á HM og gæti komið með ferska strauma í liðið. Hann er ungur, óhræddur og sá maður gegn Benfica að hann er mjög direct og óhræddur að taka menn á.

Chambers hefur einnig komið skemmtilega á óvart og virðist þrátt fyrir ungan aldur ekki veigra sér við að skella sér á bólakaf í djúpu laugina og staðið sig mjög vel, rólegur á boltanum, fínar staðsetningar og yfirvegaður. Hann verður klárlega einn af uppáhaldsmönnum Wenger vegna þess að hann getur spilað nokkrar stöður, Wenger er mikill stuðningsmaður þess. Hversu mikið hann fær að spila í vetur skal ósagt látið en hann lofar klárlega góðu.

Síðast en alveg klárlega ekki síst er það svo Chile maðurinn okkar, Alexis. Þar erum við komin með einn af okkar betri mönnum í langan tíma. Ég reikna með að hann komi til með að þurfa tíma til að aðlagast eins og flestir leikmenn sem koma til Englands en þegar að hann verður búinn að því og þeir Özil komnir með góðan skilning á hvorum öðrum, þá verður hann alger lykilmaður hjá okkur.

Einnig verður þetta næsta tímabil mikilvægt fyrir leikmenn eins og Wilshere og Chamberlain. Þeir hafa flest sem þarf til brunns að bera til að verða superleikmenn en hvort að þeir nái að festa sér byrjunarliðssæti verður að koma í ljós. Einnig erum við með nokkra fleiri spennandi unga leikmenn en nefndir hafa verið að framan eins og Bellerin, Zelalem, Gnabry og Sanogo, þeir munu klárlega koma eitthvað við sögu í t.a.m. Deildarbikarnum ef að þeir verða ekki úti á láni.

Wenger hefur svo ekki útilokað að fleiri bætist við fyrir lokun gluggans en miðvörður er líklegur í stað Vermaelen og einnig gætum við alveg notast við afturliggjandi miðjumann. Arteta er góður eins langt og það nær, góður leiðtogi til að mynda, en ekki alveg nógu varnarlega þenkjandi, enda var hann aðallega að spila í tíunni hjá Everton.

En ég held að það sem að segir mest til það hvort að við náum að berjast allt tímabilið um titilinn, sé ekki allt háð því hvaða leikmenn við kaupum, heldur hvernig við nálgumst leikina gegn hinum stóru liðunum á útivelli og einnig líka ráðnings mikilvægs hlekks í teymi liðsins. Ef Wenger breytir sinni nálgun á leikina gegn þessum liðum, og spilar ekki alltaf sama leikkerfið sama hverjum hann er að mæta, þá er strax hálfur sigur unninn.

En að mínu mati, þá er mikilvægasta viðbótin á Emirates, ráðningin á Shad Forsythe sem fitness þjálfara. Hann er mjög vel liðinn og þekktur í bransanum og hann hefði aldrei samþykkt að koma nema að vita að hann fengi að ná sínu fram. Wenger hefur lýst því yfir að hann sé mjög ánægður með hvernig hann er að koma inn í starfið. Ég bind vonir við að hann verði með fyrirbyggjandi aðgerðir og muni til dæmis varna því að við missum menn í meiðsli útaf álagi, eins og Aaron Ramsey í fyrra. Er meira að segja svo bjartsýnn að hugsanlega muni Diaby ná að verða heill í meira en viku í senn karlanginn.

Nokkrar fleiri ástæður eru fyrir því að við eigum að geta verið í baráttunni:

  • Mesut Özil, að sumra mati átti hann erfitt uppdráttar seinni hluta tímabilsins en ég vil meina að það sé ekki tilviljun þar sem að þá vorum við ekki með Walcott og Ramsey. Hann þrífst best með menn í kringum sig sem að eru hraðir og alltaf á hreyfingu. Þess vegna held ég að hann verði uppá sitt besta með Walcott og Sanchez með sér, fljótir menn sem að geta tekið hlaupin í gegn og notið allra stungusendinganna frá Özil
  • Aaron Ramsey, ef að þessi gæi helst heill allt tímabilið og er í sama forminu og síðasta tímabil, þá verður hann okkur rosalega mikilvægur.
  • Theo Walcott, þegar að hann er heill, þá er hann okkur mjög mikilvægur.
  • Erum komnir með sigurvegara í liðið sem hafa winning mentality.
  • Giroud er ekki okkar eini kostur sem fremsti maður, við höfum okkar eigin Yaya og svo getur Alexis spilað þarna, Walcott hefur líka sagt að hann geti spilað þarna.

Þannig að það eru fullt af ástæðum til að vera bjartsýnir fyrir komandi tímabil. Það verður samt örugglega eitt það mest spennandi í áraraðir, City og Chelsea eru með sterkustu hópana, van Gaal mun lyfta United upp og spurning hvað Liverpool gerir sem og lið eins og Everton. Draumurinn er auðvitað að lyfta titlinum í vor, og spurning hvort að hann sé innan seilingar eða bara tálsýn sem að hverfur fyrir framan okkur á vormánuðum. Við allavega höfum ekki verið í betra standi og stöðu í mörg mörg ár til að láta hann rætast. COME ON GUNNERS!!!

Arsenalkveðjur að norðan.

Comments

comments