Leikjaumfjöllun — 08/08/2015 at 20:12

Leikur helgarinnar: West Ham (H) – Sunnudag 12:30

by

Enska úrvalsdeildin 2015-2016: Arsenal – West Ham; Emirates Stadium kl. 12:30

Arsenal hefur leik í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun en þá mætir liðið West Ham United í Lundúnaslag á Emirates Stadium.

Um andstæðinginn

Þjálfari liðsins er Króatíumaður að nafni Slaven Bilic en hann tók við liðinu þann 9. júní 2015 af Sam Allardyce sem lét af störfum. Bilic er 47 ára gamall en þrátt fyrir það hefur hann 15 ára reynslu af knattspyrnustjórn. Hann er þekktastur fyrir tíma sinn sem landsliðsþjálfari Króatíu á árunum 2006-2012 þar sem hann naut vinsælda.

West Ham liðið byrjaði tímabilið í fyrra vel en þeir voru í sjöunda sæti um miðjan október mánuð áður en halla fór undan fæti. West Ham endaði tímabilið í tólfta sæti. Carl Jenkinson, bakvörður Arsenal var í láni hjá West Ham á seinustu leiktíð og verður það áfram yfir þessa leiktíð. West Ham hafa hinsvegar misst Alex Song til Barcelona, en hann var á láni hjá West Ham á seinustu leiktíð.

Liðsfréttir – Arsenal

Arsenal hefur aðeins styrkt sig með einum leikmanni í sumar, markverðinum Petr Cech. Liðsheildin hefur verið góð hjá Arsenal á árinu og minna um meiðsli en vanalega. Þó verða þrír leikmenn frá í þessum leik vegna meiðsla, en það eru Jack Wilshere, Tomas Rosicky og Danny Welbeck, en Welbeck og Rosicky eru byrjaðir að æfa og eru í endurheimt.

Liðsfréttir – Andstæðingur

West Ham hafa misst Alex Song úr liðinu frá því á seinustu leiktíð, en liðið seldi einnig Stewart Downing til uppeldisfélags síns, Middlesbrough. Þeir hafa hinsvegar styrkt liðið með kaupum á miðverðinum Angelo Ogbonna og miðjumönnunum Dimitri Payet og Pedro Obiang.

West Ham verður án Carl Jenkinson í leiknum en hann er á láni frá Arsenal og má því ekki spila leikinn. Framherjarnir Enner Valencia og Andy Carroll eru einnig frá vegna meiðsla. Pedro Obiang, Winston Reid og Matt Jarvis sneru allir aftur til æfinga í vikunni eftir stutt meiðsli og gætu verið með í hópnum.

Gengi liðanna að undanförnu

Arsenal vann alla sína leiki í undirbúningstímabilinu og hafa verið í fantaformi. Liðið vann Chelsea 1-0 um síðustu helgi í Samfélagsskyldinum og var nokkuð sannfærandi í leiknum.

West Ham fengu hinsvegar þátttökurétt í forkeppni UEFA Europa League vegna háttvísisreglna. Liðið komst nokkuð þægilega í gegnum Lusitanos frá Andorra í fyrstu umferðinni en lentu í vandræðum í annarri umferð gegn maltneska liðinu Birkirkara en fóru þó áfram í vítakeppni. Í þriðju umferð duttu þeir síðan óvænt út gegn rúmenska liðinu Astra Giurgiu.

Fyrri viðureignir

Arsenal hefur unnið síðustu tíu deildar og bikarleiki gegn West Ham, sem er einn bikarleikur og níu deildarleikir. West Ham sigraði Arsenal tvisvar tímabilið 2006-7 en hafa síðan þá ekki unnið Arsenal í 15 leikjum í röð.

Áhugaverðar staðreyndir í kringum leikinn

  • Arsenal hafa aðeins tapað opnunarleik sínum einu sinni á síðustu 14 árum en það var gegn Aston Villa árið 2013
  • Arsenal hefur þó aðeins byrjað leiktíðina með sigri einu sinni á síðustu fimm árum en það var á seinustu leiktíð gegn Crystal Palace
  • Arsenal hafa mistekist að skora í þremur af síðustu fjórum heimaleikjum
  • Olivier Giroud elskar að spila gegn West Ham. Hann hefur skorað fimm mörk í fimm leikjum gegn West Ham en Theo Walcott hefur skorað jafn oft gegn West Ham
  • West Ham hefur tapað opnunarleik í deildinni níu sinnum, eða oftast allra.
  • West Ham unnu níu af fyrstu 17 leikjum sínum í deildinni á seinustu leiktíð en fylgdu því með aðeins þremur sigrum í næstu 21 leik.
  • West Ham hafa ekki sigrað í 12 útileikjum í röð og hafa ekki sigrað útileik á þessu ári
  • Dimitri Payet, nýr liðsmaður West Ham skapaði 135 færi á seinustu leiktíð með Marseille en það er það hæsta í topp fimm deildum Evrópu.

EEO

S

Comments

comments