Uncategorized — 06/03/2012 at 22:08

Hetjuleg barátta dugði ekki til | 3-0 sigur á Milan

by

Arsenla vs Milan 3-0

Arsenalmenn komu ákveðnir til leiks í kvöld og settu mikla pressu á gestina strax í upphafi leiks. Ljóst var að lærisveinar Wengers ætluðu ekki að láta ófarirnar á San SIro endurtaka sig.

Strax á 6. Mínútu leiksins tókst heimamönnum að komast yfir með marki frá Laurent Koscielny. Alex Oxlade-Chamberlain hafði unnið hornspyrnu, tók hana sjálfur og Laurent sem var óvaldaður í teignum skallaði boltann af öryggi í vinstra hornið.

Skytturnar voru hvergi nærri því að vera hættar í fyrri hálfleik og héldu áfram að ógna marki gestanna. Á 10. mínútu átti Van Persie gott skot eftir góðan undirbúning frá Walcott. Abbiati í marki Milan varði naumlega með fótunum. Persie var aftur á ferðinni níu mínútum síðar þegar hann átti frábært skot fyrir utan teig en Abbiati varði með miklum tilþrifum.

Á 25. Mínútu dró svo aftur til tíðinda þegar heimamenn komust í 2-0. Þar var að verki Tomas Rosicky eftir góðan undirbúning Theo Walcott. Sá síðarnefndi kom upp hægri kantinn og átti hættulega sendingu fyrir markið sem Milanmenn náðu ekki að hreinsa nægilega vel. Rosicky var fyrstu að átta sig og setti boltann snyrtilega framhjá Abbiati í markinu, 2-0 og fyrri hálfleikur rúmlega hálfnaður.

Eftir að Arsenalmenn komust í 2-0 hægðist á leiknum enda mikil pressa af þeirra hálfu fyrstu 25 mínútur leiksins. Heimamenn héldu þó áfram að stjórna ferðinni og sóknartilraunir MIlan runnu oftar en ekki út í sandinn þegar þær nálguðust sterka vörn Arsenal.

Á 42. mínútu fengu heimamenn dæmda vítaspyrnu þegar Oxlade Chamberlain gerði gríðarlega vel með því að stinga sér inn fyrir tvo varnarmenn Milan en varð um leið felldur og réttilega dæmd vítaspyrna. Skipperinn steig á punktinn og hamraði knettinum í hægra hornið framhjá Abbiati sem fór í rangt horn. Staðan því orðin 3-0 og ljóst að allt gæti gerst á Emirates!

Á 45. Mínútu voru Arsenalmenn svo stálheppnir þegar El Shaarawy  fór hræðilega með ákjósanlegt færi en setti boltann í hliðarnetið á marki Arsenal. Skömmu síðar flautar dómari leiksins til hálfleiks og frábærar 45 mínútur af hálfu Arsenal að baki.

Seinni hálfleikur fór líkt og sá fyrri af stað með miklum látum. Sóknartilraunir Milan manna urðu beittari en það voru sóknir Arsenal líka.

Á 59. mínútu voru Arsenalmenn nálægt því að skora fjórða markið en Robin Van Persie lét Abbiati verja frá sér. Gervinho hafði þá átt ágætis skot sem Abbiati varði naumlega eftir viðkomu í varnarmanni. Van Persie var fyrstur að átta sig en Abbiati sá við honum. Tveimur mínútum síðar gerði Szczezny sig sekan um herfileg mistök þegar hann sendi beint á Zlatan Ibrahamovic en skot hans að marki var hins vegar ekki nógu hnitmiðað og Pólverjinn stálheppinn. Hann gerði hins vegar mun betur stuttu seinna þegar hann varði í tvígang. Fyrst frá El Shaarawy og síðar frá Antonio Nocerino sem var í dauðafæri í markteig Arsenal.

Á 76. Mínútu kom Szczecny Arsenalmönnum aftur til bjargar þegar hann varði gott skot frá Zlatan úr teignum. Wenger reyndi hvað hann gerði til að auka sóknarþungann en lítið kom út úr Marouane Chamakh og Park Chu-Young eftir að þeir komu inn fyrir Chamberlain og Walcott sem voru meiddir.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu náðu heimamenn ekki að setja fjórða markið og eru því úr leik í Meistaradeild Evrópu þetta árið. Þeir geta hins vegar borið höfuðið hátt eftir þessa frammistöðu og fyrri hálfleikur einn af þeim betri sem sést hefur í langan tíma hjá Arsenal.

Comments

comments