Uncategorized — 21/01/2012 at 12:23

GUNNERS TAKA Á MÓTI UNITED

by

Það verður sannkallaður risaslagur sunnudaginn þegar Arsenal tekur á móti lærisveinum Sir Alex Ferguson á Emirates leikvanginum í London. Eftir brösótt gengi undanfarið er ljóst að skyttum Arséne Wengers bíður erfitt verkefni fyrir höndum.

Eftir skelfilega byrjun á tímablinu hefur Wenger tekist að rétta skútuna af og liðið nú í hörku baráttu um meistaradeildarsæti. Segja má að 8-2 ósigur liðsins á United hafi markað byrjunina á þeirri uppsveiflu sem kom í kjölfarið. Auk þess komu ferskir vindar með nýjum leikmönnum sem hafa sett svip sinn á leik okkar manna. Þrátt fyrir góða spretti á liðið til með að detta niður í algjöra meðalmennsku þar sem mikilvæg stig hafa tapast gegn minni spámönnum.

Stöðuleiki er það sem liðið hefur sárlega vantað það sem af er tímabilsins og Wenger m.a. gripið til þess ráðs að fá hinn stórbrotna Thierry Henry („AKA“ kónginn) heim á Emirates. Til marks um stöðuleikaskort hjá Arsenal er tap liðsins gegn Swansea um liðna helgi þar sem liðinu tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri á Leeds í FA-Cup. Henry skoraði sigurmarkið sem lengi verður í minni haft.

Arsenal hefur enn ekki tekist að krækja sér í stig á nýju ári en síðasti sigur liðsins (í deild) var gegn Heiðari Helgusyni og félögum í QPR á gamlársdag. Ljóst er að Arsenal-menn munu gera allt til að koma í veg fyrir að sagan á Old Trafford í haust endurtaki sig og má því búast við hörku leik. Mikið er um forföll hjá báðum liðum og nemur meiðslalistinn heilu byrjunarliði bæði hjá Gunners og United. Ekki er víst hvort Henry geti spilað og mjög litlar líkur eru á því að Vermaelen verði með.

Flautað verður til leiks á Emirates klukkan 16 á sunnudag og verður forvitnilegt er að sjá hvort lærisveinum Wengers takist að snúa við taflinu frá því í haust.

Comments

comments