Uncategorized — 01/11/2014 at 23:15

Góður þolinmæðissigur á Burnley – Alexis með stórleik

by

Alexis Sanches

Á Emirates Stadium átti Arsenal frábæran leik gegn nýliðum Burnley í dag. Var þetta mikill þolinmæðissigur Arsenal manna en Burnley vörðust almennt vel og skipulega í leiknum og lögðu rútunni á meðan að Arsenal stýrði leiknum allan leikinn.

Hreint ótrúlegt er að það hafi þurft 70 mínútna leik til að fá fyrsta markið. Arsenal átti fullt af færum í leiknum en boltinn einfaldlega vildi ekki inn. Cazorla átti nokkur góð færi en þökk sé markmanni Burnley og skotum sem ekki hittu markið, þá héldu nýliðarnir sér inn í leiknum í um 72 mínútur.

Það var Alexis Sanchez sem hafði átt stórleik til þessa sem kom Arsenal yfir með frábæru skallamarki eftir fyrirgjöf frá Calum Chambers. Já, þið heyrðuð rétt, fyrirgjöf af kanti og skalli í markið.

Calum Chambers var síðan sjálfur á ferðinni tveimur mínútum síðar en boltinn barst til hans eftir klafs í teignum í kjölfar hornspyrnu og tvöfaldaði forskot Arsenal manna.

Það var síðan Alexis Sanchez sem kórónaði góðan leik sinn og lagði síðasta naglan í kistu Burnley manna undir lok leiksins. Vinnusemin hjá Alexis er hreint út sagt til fyrirmyndar og verðskuldar hann að vera kjörinn maður leiksins.

Theo Walcott kom inn á sem varamaður ásamt Lukas Podolski þegar um korter var eftir af leiknum en þá var staðan 2-0. Áttu þeir báðir góðan leik en ótrúlegt er að Podolski hafi ekki skorað í leiknum en hann átti meðal annars gríðarlega fast skot í markstöngina úr þröngu færi.

Frábær sigur Arsenal manna í dag og frábær spilamennska gegn nýliðum Burnley, sem spiluðu þó ágætis leik á köflum.

Eyþór Oddsson

Comments

comments