Uncategorized — 03/02/2012 at 14:21

Blackburn koma í heimsókn á Emirates

by


Eftir vonbrigðin í miðri viku þar sem Arsenal mátti sætta sig við eitt stig gegn Grétari Rafni Steinssyni og félögum í Bolton bíður liðinu erfitt verkefni um helgina. Þá tekur liðið á móti einu af botnliði deildarinnar Blackburn. Það hefur ekki beint legið lognmolla yfir gestaliðinu það sem af er tímabilsins og stuðningsmenn ekki farið leynt með óánægju sína í garð stjórn og framkvæmdastjóra félagsins. Segja má að uppsögn Steve Kean hafi legið í loftinu frá því í október á síðasta ári enda árangur liðsins ekki upp á marga fiska. Ofan á allt sama hafa lykil póstar liðsins á borð við Christopher Samba farið fram á sölu frá félaginu. Þrátt fyrir þetta virðast þeir sem fara með stjórnartaumana á Ewood Park hafa óbilandi trú á Kean og fátt sem bendir til þess að hann verði látinn taka poka sinn.

Wenger og félagar eiga harm að hefna eftir ófarirnar í fyrri leik liðanna á þessari leiktíð þar sem Blackburn tókst með góðri hjálp okkar manna að knýja fram ótrúlegan 4-3 sigur. Mörk Arsenal í þeim leik gerðu Gervinho, Arteta og Chamakh. Yakubu skoraði tvö fyrir Blackburn ásamt því að Alex Song og Koscielny gerðu sitthvort sjálfsmarkið. Það ætti því ekki að þurfa mikið til mótivera liðið fyrir þessa viðureign en betur má ef duga skal og ljóst að lærisveinar Wengers munu þurfa leggja allt í sölurnar ætli þeir sér þrjú stig í hádeginu á laugardag. Arsenalmönnum hefur enn ekki tekist að krækja sér í þrjú stig árið 2012 og stuðningsmenn því orðnir langeygðir eftir sigri.

Þó svo stigin hafi ekki verið að skila sér inn í janúar þá hefur meiðslalisti félagsins hægt og sígandi verið að rýrna og lykilleikmenn að skila sér á ný í hóp. Bacary Sagna byrjaði sinn fyrsta leik í langan tíma gegn Bolton auk þess sem Arteta og Mertesacker komu aftur inn í liðið. Þá styttist í það að Gibbs verði orðinn leikfær og sama má segja um Jenkinson og Diaby. Blackburn verða án lykilleikmanna á morgun þar sem Yakubu tekur út bann ásamt fyrirliðanum Christopher Samba.

Uppselt er á Emirates og hefst leikurinn klukkan 13 á íslenskum tíma.

Comments

comments