Uncategorized — 06/07/2012 at 15:22

Ástand hjá Arsenal

by

Þessi pistill birtsit einnig á www.433.is í dag.

Ég skil Robin van Persie 100% að vilja ekki skrifa undir nýjan samning við Arsenal. Þetta mun væntanlega verða hans síðasti samningur, hann hefur tækifæri á að fá himinhá laun hjá Man City sem einnig eru líklegri til þess að vinna titla en Arsenal. Þegar Nasri fór til Man City í fyrra var alveg hægt að segja að eina ástæðan fyrir brottförinni hafi verið peningar, það er ekki hægt lengur. Bikarmeistarar þarsíðasta tímabil og núverandi meistarar. Man City er það lið sem er líklegast til árangurs á næsta tímabili. Segi það því aftur, ég get alveg skilið að Persie vilji fara núna strax.

Hins vegar er yfirlýsingin hans mikil vanvirðing í garð Arsenal F.C. og alls sem þessum klúbbi tengist. Hann lýsir því yfir opinberlega að Arsenal F.C. sé metnaðarlaus klúbbur með heimskan eða barnalegan stjórnarformann. Ókey, kannski er það satt en Arsenal F.C. er samt klúbburinn sem gaf honum tækifæri til þess að spila í bestu deildum Evrópu, þeirri ensku og meistaradeildinni og Arsenal F.C. stóð einnig vel við bakið á honum þessi 7 ár sem hann var stanslaust meiddur. Af hverju að láta þann klúbb, þjálfarann, aðdáendur og liðsfélaga sína líta svona illa út? Hann hefði alveg getað fengið sínu fram, algjör óþarfi að koma með þessa yfirlýsingu.

Hann er með þessu að reyna að kúga Arsenal til að selja sig. Jafnframt að auðvelda leiðina fyrir City (líklegast) til að kaupa sig. En samt á sama tíma að segja að hann gæti alveg klárað samninginn sinn hjá Arsenal en notar spilið „sko aðdáendur, bara ef klúbburinn vill vinna titla eins og allir vilja þá mun ég vera áfram, en það er Arsenal F.C. sem gefur mér engra kosta völ, þetta er ekki mér að kenna, ekki púa á mig.“

Ég trúi ekki öðru en ef hann væri heiðarlegur maður þá myndi hann vinna í samvinnu við Arsenal um að fá fram sína sölu. Þá hefði veirð hægt að setja sameiginlega yfirlýsingu frá klúbbnum og Persie þar sem enginn hefði verið settur í leiðinlega stöðu.

Ég var að vonast eftir því að Persie myndi sýna að fótboltamenn hagi sér ekki alltaf eins og sólin snúist í kringum þá, en þvert á móti.

Frá því Arsenal fór á Emirates hefur lífið ekki verið auðvelt fyrir Arsenal aðdáandann. Við höfum þurft að horfa á eftir virkilega góðum leikmönnum eins og Henry, Flamini, Nasri, Hleb, Kolo, Clichy, Fabregas og Adebayor. Það er ekki til EF í fótbolta, en hvar væri Arsenal EF þessir leikmenn væru ennþá hjá félaginu? Kannski meistarar – fjórir af þessum leikmönnum fóru til City!

Sagt er að endalokin sýni þinn innri mann. Ég ætla ekki að fara í söguna á öllum þessum leikmönnum, en Adebaoyr tókst að skora 30 mörk eitt tímabil. Þá átti að gera allt fyrir hann, hann vildi fá hærri laun en t.d. Cesc og af því að Arsenal vildi ekki skeina honum með gulli þá var farið fram á sölu. Fengum nóg af peningum fyrir hann og hann spilaði með Spurs síðasta tímabil. Fyrir alla sem halda með Arsenal þá er það stórt skref niður á við. Henry skoraði reglulega 30 mörk hvert tímabil. Hann fór með nokkurri sæmd, það sáu það allir að hann var orðinn þreyttur hjá Arsenal og hann þurfti nýja áskorun. Auk þess voru læknaskýrslur hans ekki hagstæðar og honum var ráðlegt að fara það sem hitastigið væri hærra en á Englandi. Margir halda að Fabregas hafi farið í góðu. En svo er ekki, hann kom reglulega fram opinberlega þar sem hann sagðist bara vilja spila með Barcelona sem gerði það að verkum að samningsstaða Arsenal var engin. Hann fór svo í verkfall í fyrra því Arsenal ætlaði ekki að selja hann þar sem Nasri var með mikla stæla og Arsenal F.C. vissi hvernig það myndi enda. Verkfallið fór mjög illa í Wenger og hans helstu vinir segja að sárið sem Fabregas olli honum verði lengi að gróa.

Því miður verður Persie að teljast í flokk með Nasri og Adebayor. 7 tímabil hjá Arsenal spilaði hann að meðaltali 22 leiki á tímabili, 18 í byrjunarliðinu. 8. tímabilið spilaði hann næstum því alla leikina og var frábær. Hann getur fengið það sem hann vill og ég held að það skilji hann flestir, en hvernig hann reynir að kúga sínum vilja fram er með ólíkindum.
Hvernig er hins vegar staðan hjá Arsenal? Það vissu það flestir að peningalega séð gæti orðið erfitt að flytja yfir á nýjan völl. Félög hafa misst tök á sínum fjármálum við að flytja og jafnvel hrapað niður deildir. Arsenal hefur náð að halda sínu sæti í meistaradeildinni og það verður að teljast nokkuð gott. Það sem hins vegar háir Arsenal eru lélegir samningar við NIKE og Emirates í undirbúningsvinnu að vellinum. Samningar sem renna ekki út fyrr en 2014. Þeir sem hafa verið svo heppnir að fara skoðunarferð með Jeff eða Ian um Emirates hafa einnig heyrt að stefna Arsenal hefur alltaf verið að greiða niður völlinn árið 2013, eða 12 árum á undan áætlun. Það hlýtur að segja manni að allur peningur sem verður „auka“ fer í að borga niður völlinn. Hvort sem það er vegna sölu á leikmönnum eða annars. Ofurtrú Wenger og Gazidis á FFP (FIFA Fair Play) hefur líka orðið til þess að Arsenal er fyrir löngu búið að þróa viðskiptaform eins og FFP sé þegar komið á laggirnar. Svo getur vel verið að FFP verði aldrei að veruleika.

Mikil togstreita er einnig í stjórn Arsenal. Stjórnarmenn og konur, stórir eigendur af Arsenal hafa gefist upp og selt bréfin sín, loforð hafa verið gefin á dánarbeði og allskonar drama sem er ekki hægt að líkja við neitt annað en söguþráð í Guiding Light. Á meðan sumir klúbbar hafa einn stóran eiganda sem dælir peningum inn í klúbbinn þá hefur Arsenal tvo og hvorugur kemur með peninga inn í klúbbinn. Annar þeirra er töluvert eða reyndar miklu ríkari en Abramovich hjá Chelsea. Usmanov heitir hann ef einhver vissi það ekki, en hann kom vitlausu megin að stjórnarborði Arsenal. Á meðan stærsti hluthafi Arsenal, Stan Kroenke, kom eins og riddari á hvítum hesti þá kom Usmanov fram á sjónarsviðið sem harður stuðningsmaður Man Utd og hafði með sér David Dein sem ekki löngu áður hafði verið rekinn sem stjórnarformaður Arsenal. Stuðningsmenn og stjórnarmenn, auk Wenger, lokuðu strax á Rússann og hans illa fengna dollara. Stan er hins vegar hægt og rólega að sýna sitt rétta andlit, Arsenal F.C. er ekkert annað en fyrirtæki sem hægt er að mjólka og mjólka. Nýjasta útspilið hans var að taka í burtu afslætti sem stuðningsmannaklúbbar og starfsfólk fékk í Arsenalbúðunum. Já, starfsfólkið hjá Arsenal F.C. fær ekki lengur starfsmannaafslátt í von um að Kroenke fái meira í vasann.

Í dag velta hins vegar margir fyrir sér hvort Wenger sé að hjálpa Usmanov að komast inn í stjórn og Wenger sé að horfa til peningana hans. Nýjasta útspil Usmanov er fimm blaðsíðna gangrýni á stjórnina fyrir Persie málið. „Sá var fljótur“, segja sumir – of fljótur í raun. Svo fljótur að sögusagnir eru á kreiki um að Usmanov hafi vitað þetta og hafi verið tilbúinn með skýrsluna. Þó David Dein hafi verið rekinn þá fer Wenger ekki leynt með það að þeir tveir eru bestu vinir. David Dein sá um samningamál fyrir Wenger sem voru í góðum málum alla hans tíð en núna sér Gazidis um þau og það eru allar stjörnurnar að komast í þannig stöðu að þeir eiga bara eitt ár eftir af samningi sínum á meðan leikmenn á borð við Vela, Bendtner, Diaby og Fabianski fá langtíma samninga á himinháum launum m.v. leikmenn sem spila ekkert. Diaby á að vera á næstum því jafn háum launum og Ryan Giggs hjá Man Utd. Almunia og Squillacy eru á svo háum launum að ekkert gengur að selja þá. Að vísu er samningur Almunia útrunninn, en við sjáum hversu góður markmaður hann er – hann er ekki enn búinn að finna sér félag.

Ofan á þessa togstreitu milli stjórnarmanna, stærstu hluthafa, Wenger og David Dein er Darren Dein. Hann er umboðsmaður Henry, Fabregas, Nasri og Clichy svo einhverjir séu nefndir! Allt leikmenn sem hafa farið, hann er einnig ráðgjafi Persie og umboðsmaður Song sem er að biðja um 120.000 pund á viku!!! Er eitthvað á bakvið það að sonur fyrrverandi stjórnarformanns Arsenal sé með flestu leikmenn Arsenal á sínum snærum og komi þeim öllum í burtu frá Arsenal? Umboðsmenn sem Wenger hefur ekki verið sáttur við hafa verið bannaðir frá Arsenal og leikmenn ráðlagt að skipta um umboðsmenn en Darren Dein fær að gera það sem hann vill.

Þó Arsenal sé að standa sig þokkalega vel án þess að vinna titla þá er ég nokkuð pottþéttur á því að þegar Wenger gefur út ævisögu og rifjar upp þessi ár, fyrstu árin eftir færsluna til Emirates þá mun koma í ljós að til staðar hafi verið miklu meiri dramatík en við getum ímyndað okkur.

Arsenal F.C. verður þó alltaf Arsenal F.C. Við aðdáendurnir höldum áfram að styðja okkar lið og lífið heldur áfram.

SHG

Comments

comments