Lög klúbbsins

I. Heiti félagsins, heimili, tilgangur og félagsform.

1.gr.
Félagið heitir “Arsenalklúbburinn á Íslandi”. Enskt hjáheiti er “Arsenal FC Supporters Club Iceland”. Skammstafað ASCI.

2.gr.
Heimili félagsins er lögheimili formanns stjórnar þess á hverjum tíma. Varnarþing félagsins er í Reykjavík.

3.gr.
Tilgangur félagsins er að vera vettvangur fyrir alla stuðningsmenn Arsenal F.C. á Íslandi. Félagið skal leitast við að gefa út fréttabréf á því formi sem henta þykir hverju sinni, standa fyrir ferðum á leiki erlendis, aðstoða félagsmenn við að útvega Arsenalvarning og standa fyrir upplýsingamiðlun fyrir félagsmenn á heimasíðu félagsins á Internetinu. Jafnframt er stjórn félagsins heimilt að gera annað það sem nauðsynlegt þykir svo samræmist framangreindum tilgangi félagsins.

4.gr.
Félagið er áhugamannafélag. Það er ekki rekið í hagnaðarskyni og mun ekki stunda neinn atvinnurekstur né heldur aðra fjárhagslega starfsemi, umfram það sem nauðsynlegt er til að stuðla að tilgangi þess samkvæmt 3.gr.

II. Félagsmenn.

5.gr.
Félagsmenn hvers tímabils eru allir sem hafa skráð sig í félagið og greitt félagsgjald.

6.gr.
Félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald njóta fullra félagsréttinda samkvæmt lögum þessum og þeirra hlunninda sem félagið leitast við að afla félagsmönnum.

7.gr.
Stjórn félagsins getur tekið ákvörðun um brottvikningu félaga úr klúbbnum ef þeir, sem fulltrúar klúbbsins innan lands eða erlendis, hegða sér með ótilhlýðilegum hætti. Skal slík ákvörðun vera einróma.

III. Reiknings- og starfsár.

8.gr.
Reiknings- og starfsár félagsins telst vera frá 16. maí til 15. maí ár hvert.
Árleg félagsgjöld skulu miðast við reikningsár félagsins. Fjárhæð og greiðslufyrirkomulag skal ákveða á aðalfundi ár hvert.

IV. Aðalfundur og almennir félagsfundir.

9.gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í skipulagsmálefnum félagsins og hefur einn vald til að breyta lögum þess.

Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en í lok maí ár hvert. Aðalfund skal auglýsa á heimasíðu félagsins og  boða öllum félagsmönnum skriflega og/eða með rafrænum pósti, dagskrá með a.m.k. viku fyrirvara og er hann þá lögmætur.

Í aðalfundarboði skulu kynntar þær tillögur til lagabreytinga, sem óskað er eftir að hljóti afgreiðslu aðalfundar. Með aðalfundarboði skulu einnig fylgja upplýsingar um framboð til stjórn félagsins, sem kjósa á um á fundinum.

Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Auk þess skal boða til almenns félagsfundar að kröfu tveggja stjórnarmanna eða ef 1/5 hluti félagsmanna fer fram á það skriflega við stjórmina.

Verkefni aðalfundar eru eftirfarandi:

a) Kjör fundarstjóra og fundarritara.
b) Skýrsla stjórnar lögð fram.
c) Endurskoðaðir reikningar stjórnar lagðir til samþykktar.
d) Breytingar á lögum félagsins.
e) Ákvörðun á félagsgjaldi fyrir næsta starfsár.
f) Kjör stjórnar.
g) Kjör endurskoðanda.
h) Önnur mál.

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða, nema þegar tillögur til breytinga á lögum félagsins eru afgreiddar, en 2/3 hluta fundarmanna á löglegum aðalfundi þurfa að greiða þeim atkvæði til að þær taki gildi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. maí næstan á undan aðalfundardegi. Skal þess getið frá hverjum tillagan kemur.

Framboð til stjórnar Arsenalklúbbsins á Íslandi skulu tilkynnt stjórn fyrir 1. maí næstan á undan aðalfundardegi. Tilkynningu skal fylgja staðfesting þess sem býður sig fram á því að hann gefi kost á sér til embættisins. Kosningar til stjórnarsetu og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar skulu vera leynilegar.

Atkvæðisrétt á aðalfundum og kjörgengi í embætti hafa þeir félagsmenn sem eru fullgildir félagar þann 1. maí næst á undan aðalfundi.

V. Stjórn félagsins.

10.gr.
Stjórn Arsenalklúbbsins á Íslandi skipa fimm aðalmenn og tveir til vara.  Aðalfundur skal fyrst kjósa formann sérstaklega. Síðan skal kjósa tvo stjórnarmenn og tvo til vara auk eins endurskoðanda. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti en því, að formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi.
Formaður félagsins er kosinn til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir tveir í einu til tveggja ára í senn, varamenn í stjórn og endurskoðandi eru kosnir til eins árs.
Félagsmenn sem mæta á aðalfundinn fá atkvæðisrétt svo lengi sem þeir eru skuldlausir. Umboð skuli berast stjórn eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund.

11.gr.
Stjórnarmenn verða að vera félagsmenn.

12.gr.
Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda innan ramma þessara laga. Stjórnin tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum þess gagnvart öðrum aðilum.

13.gr.
Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda með minnst viku fyrirvara með tryggilegum hætti. Skulu varamenn taka sæti í stjórn í réttri röð eftir atkvæðafjölda á aðalfundi.

VI. Gildistaka.

14.gr.
Lög þessi tóku gildi 16. október 2004. Breytt með kosningu 28. október 2006 (tóku gildi 27. janúar 2007).

Samþykkt á aðalfundi Arsenalklúbbsins á Íslandi 16. október 2004.
Staðfest á stjórnarfundi, Reykjavík, 16. október 2004.

Breytingar samþykktar á aðalfundi Arsenalklúbbsins á Íslandi 28. október 2006.
Breytingar staðfestar á stjórnarfundi, Reykjavík, 27 janúar 2007.


Breytingar samþykktar á aðalfundi Arsenalklúbbsins á Íslandi haldinn 19. maí 2008.
Breytingar staðfestar á stjórnarfundi, Reykjavík, 19. maí 2008.


Breytingar samþykktar á aðalfundi Arsenalklúbbsins á Íslandi haldinn 28. maí 2015.
Breytingar staðfestar á stjórnarfundi, Hafnarfirði, 28. maí 2015.