Leikmannasölur, kaup og lán — 26/08/2017 at 19:42

Alexis sagður lykilskotmark Man City

by

Vangaveltur um framtíð chileska framherjans Alexis Sánchez hafa verið mjög háværar undanfarna mánuði og óhætt er að gera ráð fyrir að þær muni halda áfram að flæða langt fram á sumar.

Samkvæmt heimildum Sky-fréttastofunnar sem fram komu nú í dag er Alexis enn lykilskotmark hjá Manchester City sem þó hefur enn ekki haft formlegt samband við Arsenal vegna málsins.

Alexis átti eins og kunnugt er afar góðu gengi að fagna á nýafstöðnu tímabili og skoraði í heildina 30 mörk fyrir liðið í öllum keppnum. Staða Arsenal er hins vegar snúin þar sem samningur kappans rennur út um sumarið 2018 og á klúbburinn því á hættu að missa hann frítt næsta sumar ef ekki verður undirritaður nýr samningur.

Alexis hefur áður starfað með Pep Guardiola, stjóra Man City, þegar Guardiola stýrði Barcelona á árunum 2011-2012 og í apríl síðastliðnum lét Guardiola hafa eftir sér að fjöldi liða myndi hafa augu á Alexis í sumar.

Hvað sem öllu líður er ljóst að Arsenal bíður ströng barátta við að sannfæra hinn magnaða Alexis um að framlengja samning sinn hjá liðinu og líklegt að margir angar eigi enn eftir að teygja sig út úr þessari sögu.

Comments

comments