Uncategorized — 15/02/2012 at 22:18

Brotlending í Milan

by

Arsenal sótti AC Milan heim í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld á San Siro í Mílanóborg. Leikurinn fór rólega af stað og ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Svo virðist sem Wenger hafi lagt upp með það að fá ekki á sig mörk í leiknum en annað kom á bátinn.

Vörnin í fyrri hálfleik var vægast sagt ekki upp á marga fiska hjá okkar mönnum sem gerði það að verkum að Ibrahimovic og félagar áttu ekki í vandræðum með að opna öftustu fjóra upp á gátt. Á 15. mínútu leiksins kom Boateng heimamönnum yfir eftir að hafa fengið laglega sendingu inn fyrir vörn Arsenal. Færið kláraði hann frábærlega með því að þruma knettinum í slá og inn úr miðjum teignum óverjandi fyrir Szcesny.

Á 38. mínútu jók Robinho forskot Milan í 2-0. Undirbúningur Zlatan Ibrahimovic var laglegur en hann kom vaðandi upp vinstri kantinn og átti góða sendingu beint á hausinn á þeim fyrrnefnda sem skallaði knöttinn í netið fram hjá Pólverjanum knáa í markinu. Svíinn virtist hins vegar vera rangstæður í aðdraganda marksins en það var ekki spurt af því og markið stóð.


Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks annað en að Koscielny fór meiddur af velli sem eru slæmar fréttir fyrir Gunners þar sem Mertesacker fór meiddur af velli síðustu helgi. Í stað frakkans kom Johan Djourou.

Milan hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik því strax á 49. mínútu skoraði Robinho sitt annað mark og kom heimamönnum í 3-0. Hann fékk sendingu rétt fyrir utan teig þar sem Vermalen hrasaði og náði ekki að komast fyrir skot hans sem fór í bláhornið framhjá Szczesny og ljóst að róðurinn yrði þungur.

Í kjölfarið af þriðja markinu sóttu Arsenalmenn í sig veðrið en þó án þess að ná að setja mark sitt á leikinn. Van Persie komst næst því um miðjan síðari hálfleik þegar hann fékk skemmtilega hælsendingu frá Henry en Abbiati í marki Milan varði stórkostlega.
Á 78. mínútu fengu Milan svo vítaspyrnu þar sem dómarinn taldi Djourou hafa brotið á Zlatan en um það má svo deila. Spyrnuna tók Zlatan sjálfur og skoraði þrátt fyrir að Szcesny hafi verið nálægt því að ná til knattarins.

Arsenal mönnum tókst ekki að minnka muninn það sem eftir lifði leiks sem gerir það að verkum að þeir eiga virkilega erfitt verk fyrir höndum þegar Milan koma í heimsókn þann 7. mars næstkomandi. Það verður hins vegar ekki litið framhjá því að Arsenalmenn virtust engan veginn tilbúnir í slaginn í kvöld og ljóst að Wenger býður erfitt verkefni fyrir höndum. Byrja þarf á því að stoppa upp í þau göt sem Milan-menn áttu auðvelt með að finna í kvöld. Miðjan var auk þess hvorki fugl né fiskur sem gerir það að verkum að kantspil og Robin Van Persie detta algjörlega út úr leiknum.

Á næstu helgi mætir liðið svo Sunderland í bikarnum á útivelli. Heimamenn eiga harm að hefna frá því á síðustu helgi þar sem Henry skoraði sigurmark á lokasekúndum leiksins. Henry verður hins vegar fjarri góðu gamni á laugardaginn þar sem hann spilaði sinn síðasta leik fyrir félagið í kvöld og heldur nú til baka til Bandaríkjanna þar sem hann leikur með New York RedBulls.

Comments

comments